145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við gefum okkur að það sé rétt og þetta sé rétt lýsing hjá hv. þingmanni þá er það bara slæmt, þá er það alls ekki gott mál. Ég ítreka og árétta þá skoðun sem ég lýsti í ræðu minni sem er sú að ég tel að hér eigi að vera viðskiptafrelsi, að við eigum að byggja almennt á viðskiptafrelsi ef við viljum styrkja landbúnað, sem ég held að við séum öll sammála um að gera að einhverju leyti. Ef við viljum gera það og gefum okkur að við gerum það þá á að gera það með beinum hætti. Þá eigum við að einbeita okkur að þessum búvörusamningum, gera þá sem best úr garði og hætta að blanda þessum málum saman og búa til svona leikfléttur. Höfum það bara allt uppi á borðinu; gagnsæi, opið bókhald í landbúnaðarkerfinu og landbúnaðarstyrkjum eins og annars staðar í þjóðfélaginu. Um það hljótum við hv. þingmaður að geta verið sammála.