145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Fyrst nokkur orð um ofurbónusana. Þeir eru til skammar og samræmast ekki gildum siðaðs samfélags. Ætlum við virkilega ekkert að læra af hinum fleygu orðum fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmis Gunnarssonar, í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem hann sagði:

„Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Ég neita að búa í slíku samfélagi.

Að öðru máli sem skiptir okkar samfélag miklu máli en það er tillaga til þingsályktunar sem lögð hefur verið fram þar sem 25 þingmenn úr öllum flokkum óska eftir því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um flugvöll í Vatnsmýrinni. Ég vona að þetta mál komi til umræðu sem allra, allra fyrst á Alþingi. Ég fagna einnig aðkomu Ólafar Nordal að málinu í gær með bréfi sem hún sendi til borgarstjóra.

Bara til þess að menn geri sér grein fyrir hvað við erum að tala um mikilvægt mál er ég með nokkrar staðreyndir um sjúkraflug úr BS-ritgerð í hjúkrun frá árinu 2014. Það eru farin 500 sjúkraflug á ári og 100 þyrluflug á Íslandi. 20% af þeim eru svokölluð forgangsflug þar sem líf liggur við. Aldur sjúklinga er allt frá nýfæddum börnum til 95 ára gamals fólks. Flest eru flugin frá Akureyri og næst koma Vestmannaeyjar. Sjúklingar eru oftast fluttir suður vegna hjarta- og æðasjúkdóma eða alvarlegra áverka. Af niðurstöðum í ritgerðinni má álykta að sjúklingar sem fluttir eru með sjúkraflugi til Landspítalans séu að jafnaði alvarlega veikir eða slasaðir. Þá fer sjúkraflugum þar sem um bráða og mögulega lífsógn er að ræða fjölgandi. (Forseti hringir.) Þess vegna er flugvallarmálið eitt mikilvægasta mál í okkar samfélagi í dag.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna