145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[15:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessum tíma í borðinu.

(Forseti (ÞorS): Forseti getur upplýst að tímanum er skipt upp …)

Það eru bara tveir ræðumenn. Við erum með 23 mínútur og þess vegna meikar engan sens að ég sé bara með átta mínútur.

(Forseti (ÞorS): … hefur skýringu á því?)

Ég mundi bara hafa engan tíma, ég veit að ég er með 23 mínútur og við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson skiptum tímanum á milli okkar.

Forseti. Ég hóf upphaflega afskipti af stjórnmálum af því að það var gríðarlega sterk krafa úti í samfélaginu í kjölfar hrunsins um að almenningur, fólkið, ætti að fá að búa til stjórnarskrá fólksins fyrir fólkið í landinu. Alþingi hefur verið með drög að stjórnarskrá sem við fengum að gjöf frá danska konungnum þegar við fengum okkar sjálfstæði. Fyrir 70 árum voru þetta drög, í dag eru þetta drög. Alþingi hefur reynt í meira en 70 ár að búa til heildstæða stjórnarskrá, samfélagssáttmála fólksins, en í dag horfum við upp á niðurstöðu hinnar ágætu nefndar sem er skilað inn sem þingmannafrumvarpi frá forsætisráðherra sem hann einn er á. Hann er eini aðilinn sem er með nafn á þessu frumvarpi. Eftir 50 fundi stjórnarskrárnefndar er afraksturinn þrjár greinar saman í skjali sem er veruleg útþynning á því sem þjóðin sagði að hún vildi sem drög að nýrri stjórnarskrá.

Þjóðin fékk að segja hvað hún vildi. Alþingi hélt þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október árið 2011 og Alþingi hafði þá ekki dug eða getu til að viðurkenna þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einhver mesta hneisa í okkar sögu, í sögu lýðveldisins Íslands, að sú ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla hafi verið hunsuð. Hvað fáum við í staðinn? Þingmannafrumvarp á síðustu dögum Alþingis. Þetta er hneisa, forseti, þetta er lítilsvirðing við vilja þjóðarinnar, algjör og fullkomin hneisa. Mér er fullkomlega misboðið að þetta sé lagt fyrir okkur á síðustu dögum þingsins.

Það tókst ekki betur en svo að ná sameiginlegum millileik með þessar tillögur en að hæstv. forsætisráðherra er einvörðungu aleinn með þetta frumvarp. Það sýnir okkur kannski svo ákaflega skýrt að Alþingi er ekki fært um að vinna stjórnarskrárbreytingar á heildrænan hátt. Við erum vön því á Alþingi að togast á um mikla hagsmuni. En það tókst vel til þegar stjórnarskrá fólksins, nýja stjórnarskráin, var gerð af því að það var gott samráð. Allir höfðu færi á að koma með tillögur að breytingum. Það skipti ekki máli hvort það voru löglærðir eða fólk sem hefur látið sig ýmis samfélagsmál varða. Það var hlustað. Og það er það sem þessi nefnd gerði ekki. Þessi nefnd vann fyrir luktum dyrum. Og síðan þegar loksins fékkst í gegn — það var töluverð barátta, skal ég segja ykkur, hv. þingmenn, sem þurfti að heyja til þess að nefndin mundi alveg örugglega senda tillögur sínar út til umsagnar. Síðan sendi hún tillögur sínar út til umsagnar eftir þessa 50 fundi sína — og hunsar þær svo. Það var ekki tekið neitt tillit til þeirra umsagna sem komu til nefndarinnar. Það er með ólíkindum að bjóða okkur upp á þetta á síðustu dögum þingsins en sýnir, eins og ég sagði áðan, að það þarf að finna einhverja aðra leið til að við getum fengið okkar samfélagssáttmála, getum fengið heildræna sýn, stjórnarskrá á mannamáli sem allir skilja. Þetta er ekki leiðin, það verður svo að segjast.

Þegar við horfum á þessar tillögur hlýt ég að hugsa: Mikið óskaplega hefði ég viljað að við hefðum getað tekið ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur og gert það að lögum. Mikið rosalega hefði það verið frábær leið fyrir þetta þing að sýna að það taki hlutverk sitt alvarlega, sýna að það treysti þjóðinni til að hafa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur án þess að setja upp þannig þröskulda að Feneyjanefndin segi að þeir séu ólýðræðislegir. Þegar ég tala um þröskulda er ég að tala um þá þröskulda sem stjórnlaganefnd forsætisráðherra ákvað að setja, þröskuldinn um að ef mál er knúið fram með þjóðaratkvæðagreiðslu sé mjög stórum liðum kippt út. Við getum ekki knúið ákveðin frumvörp fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef einhverjum hópum í íslensku samfélagi, almenningi, tekst að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu er settur þannig þröskuldur að það er ekki ólíklegt að erfitt væri að fá málið samþykkt eða því synjað.

Ég er mjög hugsi yfir þessu og döpur yfir þessari niðurstöðu. Þrátt fyrir að settur hafi verið gríðarlega hár þröskuldur á það að samþykkja þessar tillögur eða synja var ákveðið lag og það var tækifæri. Það hefði verið tækifæri til að breyta stjórnarskránni. Við skulum ekki gleyma því að langstærsta málamiðlunin sem hefur nokkurn tíma átt sér stað varðandi stjórnarskrá varð eftir hrun hjá þeim aðilum sem voru í stjórnlagaráði og þeir voru svo sannarlega ekki einsleitur hópur. Sannarlega var farið þar í miklar málamiðlanir en það tókst. Það tókst líka að hafa allt starfið opið þannig að ég tel mjög brýnt að við höldum nýju stjórnarskránni lifandi og setjum hana í ferli þannig að almenningur sé svo sannarlega úti um allt land með í samræðunni um af hverju við þurfum þessar breytingar. Margir segja að við þurfum ekki að breyta mannréttindakaflanum, það sé alger óþarfi, það sé nýbúið að því, fyrir 13 árum eða eitthvað slíkt. Þegar við erum hins vegar að hugsa um stjórnarskrána erum við að hugsa um það sem kallað var eftir, það sem fólkið talaði um og það er að það vildi fá samfélagssáttmála um það hvernig við endurspeglumst í okkar æðstu lögum sem þjóð. Það sem við höfum í höndunum er ekki endurspeglun á því. Við munum aldrei ná að fá heildræna stjórnarskrá ef við ætlum að vinna þetta svona. Það er dapurlegt ef það eru skilaboðin sem við fáum frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, að þeir hafi ekki dug í sér eða hugrekki til að verða við mjög skýrri kröfu og ósk frá almenningi í landinu.

Það var ömurlegt að fylgjast með stjórnarandstöðuflokkunum tveimur — svo sannarlega var ég jafnframt í stjórnarandstöðuflokki — ömurlegt að fylgjast með hvernig Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn höguðu sér undir lok síðasta kjörtímabils. Það er aðeins öðruvísi árferði núna, aðeins öðruvísi stemning í þingsalnum núna en þegar farið var fram af alveg ótrúlegri óbilgirni, ótrúlega svívirðilegum aðferðum, af þessum flokkum sem nú eru í ríkisstjórn. Það var svívirðilegt að horfa á þetta. Hv. þm. Birgir Ármannsson glottir hér. Hann var einn af þeim sem stóðu fremstir í flokki við að stöðva nýja stjórnarskrá fólksins sem stjórnlagaráð færði inn í þing og við kláruðum. Þetta var til umfjöllunar á þinginu í heilt ár. Það var brugðist við ábendingum, bæði frá hinu akademíska samfélagi, lögfræðingunum, Feneyjanefndinni og fjöldamörgum öðrum. Það var hlustað. En Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vildu ekki hlusta. Þeir ætluðu bara að stoppa þetta, alveg sama hvað, alveg eins og þeir stoppuðu þessar tillögur núna og eyðilögðu þær.

Þetta lendir auðvitað bara í ruslakistu fortíðarinnar, því miður. Ég veit að margir þingmenn sem voru í þessari nefnd vildu svo sannarlega leggja sitt af mörkum. 50 fundir voru haldnir, forseti.

Fyrst hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki hlynntur róttækum breytingum á stjórnarskrá væri afskaplega gaman, gott og gagnlegt að heyra hvaða róttæku breytingar það eru. Hvaða róttæku breytingar óttast Sjálfstæðisflokkurinn? Hvaða róttæku breytingar eru í þessari nýju stjórnarskrá? Ég átta mig ekki á því hvað það er. Ef ég hefði fengið að skrifa hana einhendis væri hún svo sannarlega miklu róttækari eða yfir höfuð róttæk því að drögin eru ekki róttæk.

Nei, það má kannski segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ástundað róttæka íhaldssemi með því að tryggja að hér verði ekki alvörustjórnarskrárbreytingar í 70 ár, að við fáum ekki nýja stjórnarskrá í 70 ár heldur bútasaum. Merkilegt nokk, með því að hafa þetta fyrir utan þennan þingsal, með því að hafa þetta fyrir utan þingmenn, náðum við merkilegri sátt. Ef við hefðum getað haldið áfram með þann sáttatón sem var sleginn á þingi værum við á öðrum stað í dag. Þá hefði ekki verið hægt að sniðganga Alþingi eins og gert hefur verið ítrekað á þessu þingi. Alþingi var sniðgengið á svívirðilegan hátt þegar þáverandi utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson ákvað að gefast upp á því að reyna að ná því að breyta þingsályktun á þingi og dreif sig aleinn og óstuddur til Brussel, sniðgekk þingið og hætti aðildarviðræðum þrátt fyrir að hér sé enn þá gild þingsályktun. Hún er enn þá í gild þannig að þetta er svo ruglingslegt fyrir fólk, hvort sem það vill vera í aðildarviðræðum eða ekki, og fólkið úti í Brussel sem við vorum í aðildarviðræðum við. Það veit enginn hvað er í gangi, hvort við erum enn í aðildarviðræðum eða ekki, hvort það er hlé. Ég hefði haldið að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki hlynntur svona stjórnsýslu því að þetta skapar óvissu, það er svo sannarlega enginn stöðugleiki fólginn í svona framferði. Þetta er þvílíkt virðingarleysi gagnvart Alþingi. Var ekki nóg virðingarleysi þegar tveir ráðherrar ákváðu í eina tíð að sniðganga Alþingi fullkomlega og gerast aðilar að innrásarstríði? Var það ekki nógu sterk lexía eða er fólki alveg skítsama um það, hæstv. forseti?

Við skulum hafa í huga að það hefur orðið málamiðlun. Málamiðlun hefur átt sér stað. Þess vegna höfum ég og Píratar og Hreyfingin sem ég tilheyrði áður alltaf sagt að okkur beri að fylgja þessari málamiðlun eins ítarlega og mögulegt er. Okkur ber að gera það. Við öll sem hér erum viljum hafa þetta á einhvern annan veg. Við viljum breyta smávegis og ef allir ætla aðeins að breyta verður engin ný stjórnarskrá. Það er löngu tímabært að Alþingi átti sig á því og þeir sem vilja vera hér að störfum að þjóðin á að setja sér sín æðstu lög. Þess vegna tel ég mjög brýnt að við þingmenn afgreiðum tillögu hér áður en þetta þing klárast sem tryggir að þjóðaratkvæðagreiðslur verði bindandi án slíkra hafta sem eru sett á þessa tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef ekki er hægt að samþykkja upprunalegu tillöguna frá stjórnlagaráðinu tel ég brýnt að Alþingi viðurkenni að það sé ekki fært um að klára málið eins og það er og við einhendum okkur í það ferli að setja þetta aftur í hendurnar á þjóðinni.