145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur frá minni hluta utanríkismálanefndar, sem er raunar sú sem hér stendur.

Samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur er, líkt og nafnið gefur til kynna, tollasamningur í kapítalísku efnahagskerfi. Nálgun hans byggist fyrst og fremst á verslunar- og viðskiptahagsmunum en lítið eða ekkert er horft til samfélagslegra eða umhverfislegra þátta. Slík sýn er að mínu mati of þröng og er hætt við að með svo þröngri sýn sé veigamiklum hagsmunum almennings og náttúru fórnað.

Ég tel óhjákvæmilegt að gagnrýna hvernig staðið var að gerð þessa samnings, sem í daglegu tali er kallaður tollasamningurinn og ég mun örugglega kalla hann það hér eftir, við Evrópusambandið. Lokið var við gerð samningsins og hann undirritaður af hálfu Íslands án þess að nokkur tilraun væri gerð til þess að greina áhrif hans á íslenskt samfélag, hvorki umhverfisleg, efnahagsleg né samfélagsleg. Þá var lokið við samninginn og hann undirritaður af Íslands hálfu án samráðs við mikilvæga hagsmunaaðila.

Eina ferðina enn er það þannig þegar kemur að utanríkismálum, og eins varðandi þennan samning, að Alþingi kemur að gerðum hlut, þ.e. ráðherra er búinn að undirbúa samning og ráðherra er búinn að undirrita hann, og svo er það Alþingis annaðhvort að staðfesta hann eða hafna honum. Alþingi, þ.e. hv. utanríkismálanefnd, hefur ekkert svigrúm. Nefndin gat ekki gert neinar breytingar á hlutum sem við hefðum hugsanlega getað komið okkur saman um að breyta, heldur gildir um þetta líkt og mjög mörg önnur utanríkismál að við komum að gerðum hlut og verðum bara að taka afstöðu til þess hvort við viljum hafna eða samþykkja gerðina. Það finnst mér voðalega bagalegt fyrirkomulag því að ég held að ef Alþingi fengi aðkomu að málum fyrr væri það mjög oft til bóta. Þetta var nú útúrdúr frá því sem ég var að ræða um, þ.e. að ekki hefði verið gerð nein tilraun til þess að greina áhrif samningsins, í það minnsta ekki af hálfu ráðuneyta.

Einu tilraunirnar til að greina áhrif samningsins á íslenskt samfélag voru gerðar eftir að skrifað var undir hann. Annars vegar er það mat sem dr. Vífill Karlsson vann fyrir Bændasamtök Íslands um áhrif samningsins á afkomu íslenskra bænda. Niðurstöður greiningar hans benda til þess að án nokkurra mótvægisaðgerða geti tap ólíkra búgreina vegna samningsins hlaupið á hundruðum milljóna króna.

Hins vegar er um að ræða skýrslu sem starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vann, en starfshópnum, sem skipaður var eftir undirritun tollasamningsins, var ætlað að meta áhrif hans á einstakar búgreinar, einkum þó svína- og alifuglarækt, auk þess að meta áhrif og kostnað vegna nýrra reglugerða um velferð búfjár sömu búgreina. Fyrir nefndinni kom margoft fram að betra hefði verið að vinna greinargerðir um áhrif samningsins fyrr í ferlinu. Undir það tekur ég heils hugar.

Á liðnum árum hefur vitund neytenda um mikilvægi dýravelferðar aukist hratt. Það er mat minni hlutans í hv. utanríkismálanefnd, þ.e. mín, að ekki sé tryggt nægilega vel með samningnum að vörur þær sem hingað kunna að vera fluttar á grunni samningsins séu framleiddar við sómasamlegar aðstæður hvað þetta varðar.

Það má hins vegar alla vega nefna eitt atriði til ávinnings af samningnum, þ.e. að hann gefur fleiri færi á innflutningi á upprunamerktum ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi. Ættu slíkir ostar því að geta staðið neytendum til boða á lægra verði en verið hefur hingað til eftir gildistöku samningsins og þessir ostar eru ekki í samkeppni við innanlandsframleiðslu.

Mér finnst hins vegar mikilvægt að skoða þetta í heildarsamhengi. Margir nefna einmitt þessa upprunamerktu osta sem einn af miklum kostum við samninginn. Það er hins vegar aðeins eitt atriði og mér finnst mikilvægt að við skoðum heildarmyndina. Þó svo að mér finnist Primadonna-ostur og ýmiss konar aðrir ostar ákaflega góðir finnst mér þeir eiginlega ekki nógu góðir til þess að nota þá sem einu réttlætinguna fyrir því að samþykkja þennan samning. Ég tel ókostina í það minnsta vera mun fleiri og mun koma að því nánar síðar.

Í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar er ítarleg umfjöllun um gagnkvæmni og skekkta samkeppnisstöðu landbúnaðar. Minni hluti nefndarinnar tekur undir öll meginatriði þeirrar umfjöllunar. Mig langar að nefna sem dæmi að fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á að samningurinn gerir ráð fyrir gagnkvæmni þar sem samið er um sama magn innflutnings frá ESB til Íslands og frá Íslandi til ESB. Það er hins vegar ljóst að áhrif innflutnings frá Íslandi á hinn stóra markað Evrópu verða óveruleg vegna þess hversu lítill hann er að umfangi samanborið við heildarneyslu matvæla. Á hinn bóginn gæti innflutningur frá ESB haft mikil áhrif á íslenska markaðinn þar sem sá kvóti sem um er samið er nærri 20% af heildarneyslu okkar. Þá kemur fram í áliti meiri hlutans að ESB hafi ekki verið reiðubúið til að horfa til mismunandi stærða markaða, enda fælu samningar sem þessir almennt í sér gagnkvæmni. Ég verð að segja að af þeim upplýsingum og þeirri umfjöllun dreg ég allt aðra ályktun og niðurstöðu en meiri hluti hv. utanríkismálanefndar.

Varðandi skekkta samkeppnisstöðu vil ég sérstaklega ítreka að ábendingar um skekkta samkeppnisstöðu komu ekki einungis frá landbúnaðinum heldur einnig frá innlendum framleiðendum sem bentu á að enn væru tollar á það hráefni sem þeir nota til framleiðslu sinnar á meðan tollar á fullunnar vörur væru felldir niður. Með því væri staða innlendra framleiðenda gerð mun lakari en erlendra keppinauta þeirra. Það á sérstaklega við um ýmsa matvælaframleiðslu og má sérstaklega nefna ísgerð þar sem dæmi.

Loftslagsmál eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans. Með Parísarsamkomulaginu var kveðið á um að öll ríki skyldu bregðast við til þess að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og tryggja umtalsvert fjármagn til grænna lausna. Í því ljósi er algerlega óásættanlegt að ekki hafi verið unnin greining á umhverfislegum áhrifum samningsins. Þá eru almannahagsmunir fólgnir í því að vistspori og kolefnisfótspori sé haldið í lágmarki.

Mig langar að tengja þetta aðeins við umræðu um búvörusamninga. Þó svo að ég telji að afgreiðsla þessara tveggja mála eigi á engan hátt að hanga saman tel ég að ýmis efnisatriði beggja mála séu tengd og fullkomlega eðlilegt að ræða efnisatriðin í samhengi og setja í samhengi þó svo að það eigi ekki að ráða því hvernig við afgreiðum málið. Í atkvæðagreiðslu í dag um búvörulög og fleira var rætt um tillögur frá meiri hluta atvinnuveganefndar um að ráðist verði í að skoða þætti og úrlausnarefni sem eiga að liggja til grundvallar um stefnumótun til næstu þriggja ára um það sem skoða á. Þar er m.a. heildaráætlun um hlutverk landbúnaðarins í aðgerðum sem snerta loftslags- og umhverfismál þar sem tekið er fram að skerpa þurfi á atriðum í búvörusamningunum sem snúa að umhverfismálum og setja fram markmið og áfanga sem bændur og ríkisvaldið hyggjast vinna sameiginlega að. Meðal þess sem meiri hlutinn er sammála um að mikilvægt sé að skoða og setja eigi svip á endurskoðunina fyrir árið 2019 er vegvísir um minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði. Það finnst mér afar gott. Mér finnst afar gott að það eigi að vera í búvörulögunum, en mér finnst hins vegar mjög miður ef samþykkja á tollasamning við Evrópusambandið þar sem ekki hefur verið gerð nein tilraun til þess að leggja mat á þau umhverfislegu áhrif sem hann hefur. Mér finnst það bara ekki passa að vinna það þannig.

Á fundi hv. utanríkismálanefndar var upplýst að innlend framleiðsla skilar sér oft í minna vistspori af landbúnaðarvörum en erlend. Þá kom fram að ef nálgast eigi málið heildrænt verði að taka mið af umhverfissjónarmiðum. Heildrænt í mínum huga er líka það að taka mið af þeim lögum eða þeim ákvörðunum sem við tökum á Alþingi. Bent var á að í vistspori einstaklinga leiki matvæli stór hlutverk, vistspor þeirra sem einungis borða grænmeti er minnst. Ef einstaklingar borða hins vegar kjöt skipti máli hvers konar kjöt það er, sem og hvar og hvernig það er framleitt. Flutningur á matvælum skipti máli en enn meira máli skipti þó hversu ofarlega í fæðukeðjunni dýrið er sem kjötið er af og þar með fóðrið sem þarf til þess að ala það. Fyrir nefndinni kom jafnframt fram að sérstaða íslensks búfjár er alþjóðlega viðurkennd og ræktun þess er hluti af því að viðhalda erfðafræðilegum fjölbreytileika. Íslensk lömb fá aldrei erfðabreytt fóður og áburðarnotkun vegna fóðrunar þeirra er lítil. Einnig kom fram að lambakjöt ætti að koma vel út úr vistferilsgreiningum að því gefnu að fé sé ekki beitt á ofbeitt svæði, þ.e. að beitarstjórnunin sé sjálfbær. Jafnframt var á það bent að almennt megi segja að togstreita sé á milli sjálfbærnihugsunar og frjálsar verslunar. Ég verð svo sannarlega að segja að þessi samningur hugar ekkert að sjálfbærninni, hann hugar bara að verslunarhliðinni.

Fyrir nefndinni komu fram upplýsingar um að matvælaöryggi á Íslandi væri með því besta í heiminum. Meðal þess sem kom fram var að víða í ESB væru sýkingar útbreiddari, sýklalyfjanotkun í landbúnaði algengari, tíðni baktería sem væru ónæmar fyrir sýklalyfjum meiri og eftirlit ekki jafn virkt og hér á landi. Einnig kom fram að óheimilt væri að nota sýklalyf í fóður dýra og bannað að nota sýklalyf til vaxtarauka eða til að fyrirbyggja sjúkdóma. Engu að síður fékk nefndin upplýsingar um að sýklalyfjaónæmi hefði greinst talsvert meira í Evrópu en hér á landi og að ástandið væri verra í sunnanverðri Evrópu.

Aftur má segja að það kallist dálítið á við það sem rætt var varðandi búvörulög. Þar er einmitt talað um eitt af því sem skapað hefur sérstöðu íslensks landbúnaðar, sem eru m.a. ýmsar ákvarðanir sem teknar hafa verið sem skapað hafa íslenskum landbúnaði sérstöðu sem mun styrkja samkeppnishæfni hans varðandi gæði og hreinleika og að sú sérstaða felist ekki síst í heilbrigðum dýrastofnum, grasfóðrum, lítilli notkun tilbúins áburðar og minni lyfjanotkun og fleiru. Það held ég að sé nokkuð sem við þurfum að standa vörð um. Ég er ekki viss um að við getum gert það jafn vel með þessum samningi.

Á Íslandi eru reglur strangari vegna kampýlóbakters og salmonellu. Í Evrópu er almennt ekki vöktun fyrir kampýlóbakter og þar gilda reglur um einungis um tvær tegundir salmonellu. Hér á landi gilda reglur hins vegar um allar tegundir salmonellu og greinist hún í alifuglum er öllum fuglum úr eldishópi fargað.

Í umsögn um samninginn vekur sóttvarnalæknir athygli á því að aukinn innflutningur á ferskum landbúnaðarvörum til landsins geti haft í för með sér heilbrigðisvandamál sem íslensk yfirvöld þurfi að vera meðvituð um og tilbúin að bregðast við. Bent er á að samkvæmt áliti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins sé útbreiðsla sýkla og sýklalyfjaónæmra baktería ein helsta heilbrigðisógnin sem steðjar að mannkyni. Margir þættir stuðli að útbreiðslu sýkla en einn þeirra sé dreifing með ferskum matvælum, einkum fersku alifuglakjöti.

Aftur hef ég áhyggjur af því að erfitt geti orðið að standa vörð um sérstöðu íslensks landbúnaðar, sem byggir m.a. á hreinleika þegar innflutningur eykst.

Í umsögn frá sóttvarnalækni segir, með leyfi forseta:

„Á Íslandi hefur tíðni matarborinna sýkinga hjá mönnum og sýklalyfjaónæmi verið umtalsvert minni en í flestum nágrannalöndum. Með auknum innflutningi á ferskum landbúnaðarvörum, einkum alifuglakjöti er hætt við að tíðni matarborinna sýkinga muni aukast hér á landi sem og útbreiðsla sýklalyfjaónæmra baktería. Sóttvarnalæknir telur því mikilvægt að samningur Íslands við Evrópusambandið um viðskipti með ferskar matvörur takið mið af ofangreindum áhættum og að í honum verði sett ákvæði sem gefi Íslandi möguleika á að takmarka innflutning á vörum sem sýnt þykir að auka muni ógn við almennt heilbrigði hér á landi.“

Þá kom jafnframt fram fyrir nefndinni að ekki sé kerfisbundið leitað eftir sýklalyfjaónæmi og að ekki sé fylgst með sýklalyfjaónæmi í innfluttum matvælum. Engu að síður séu til rannsóknir sem sýni að minna sé um ónæmi hér á landi.

Fyrir nefndinni kom það jafnframt fram að í umræðu um fríverslun sé ekki fjallað um sóttvarnir heldur einungis um aukin viðskipti. Tilhneigingin sé því sú að taka þá hlið ekki inn í umfjöllun um milliríkjasamninga en telja megi líklegt að sú umræða eigi eftir að verða fyrirferðarmeiri í framtíðinni. Það eitt og sér finnst mér vera ástæða til þess að við förum okkur hægt og samþykkjum ekki þennan samning fyrr en við erum búin að greina áhrif hans betur. Hér getur tíminn unnið með okkur frekar en hitt. Þá var bent á að eftirlit skorti með smásölu á ferskum matvælum hér á landi. Fyrir nefndinni kom jafnframt fram að ef sýni finnast í matvælum séu heimildir til að taka vöru af markaði. Það skorti hins vegar fjármagn til þess að hægt sé að hefja slíka sýnatöku. Minni hlutinn telur ljóst að stórauka muni þurfa fjárveitingar til ýmissa þátta eftirlits og sóttvarna, m.a. vegna dýrasjúkdóma og sýklalyfja ónæmra baktería sem fylgt geta hvers kyns innflutningi á matvælum.

Minni hlutinn telur ekki hægt að líta svo á að samningurinn tengist óhjákvæmilega frumvarpi um breytingar á búvörulögum o.fl. Ég endurtek að þar með er ekki sagt að það séu ekki fjölmörg atriði sem tengjast, líkt og ég hef farið yfir í ræðu minni, og það er margt sem ég tel að skoða þurfi í samhengi. En ég tel hins vegar engan veginn hægt að líta svo á að afgreiðsla þessara tveggja þingmála þurfi eða eigi að vera tengd, heldur verði þvert á móti að líta til þess að tollasamningurinn er milliríkjasamningur sem ekki verður breytt einhliða af Íslands hálfu, hvernig svo sem breytingar á samningum við bændur og löggjöf hér innan lands kunna að þróast í framtíðinni.

Ég tel það því óskynsamlega leið að staðfesta samninginn án þess að heildstætt mat liggi fyrir á margháttuðum áhrifum hans, svo sem umhverfislegum, lýðheilsulegum og efnahagslegum, en ekki síður varðandi samfélagslega þætti eins og byggðaþróun, matvælavinnslu og aðbúnað starfsfólks. Að öðrum kosti er ég hrædd um að það muni þurfa að grípa til ófyrirséðra mótvægisaðgerða með tilheyrandi kostnaði þegar áhrif samningsins fara að koma í ljós. Það er nú þegar viðurkennt að fara þurfa í einhverjar mótvægisaðgerðir, enda bendir meiri hluti hv. atvinnuveganefndar á það í nefndaráliti sínu með frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum og fleiru og meiri hlutinn beinir því til ráðherra að fara gaumgæfilega yfir tillögur starfshóps sem skipaður var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að kanna áhrif af tollasamningnum við ESB á einstakar búgreinar. Við vitum því að það verða einhver áhrif, við vitum bara ekki hver þau verða.

Að öðru leyti vil ég taka undir og vísa til þess álits 2. minni hluta atvinnuveganefndar sem var undirritað af hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fulltrúa okkar vinstri grænna í atvinnuveganefnd, vegna samningsins sem prentast hér með og fylgir með sem fylgiskjal.

Að öllu þessu sögðu leggur minni hlutinn í hv. utanríkismálanefnd til að málinu verði aftur vísað til hæstv. ríkisstjórnar sem láti fara fram heildstæða greiningarvinnu á áhrifum samningsins svo taka megi upplýsta afstöðu til þess hvort hafna beri þessum samningi eða samþykkja hann, með tilliti til heildarhagsmuna íslenskt samfélags og umhverfisins.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur.