145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[19:29]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég furða mig nokkuð á málflutningi hv. þingmanns og nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar þar sem varað er sérstaklega við samningi um tolla eða afléttingu tolla við Evrópusambandið á þeim forsendum að þau matvæli sem mögulega verði flutt inn geti mögulega verið sýkt eða borið með sér einhvers konar sjúkdóma til Íslands eða verið framleidd á óæðri hátt en gert er í íslenskum landbúnaði.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, eins og kom fram fyrir nefndinni, að meiri hluti þeirra innfluttu matvæla sem verið er að bæta í hérna í samningnum sé mjög svipaður og sá innflutningur sem hefur átt sér stað síðustu árin frá Evrópusambandinu vegna skorts á viðkomandi tegundum hér á landi, nautakjöti o.s.frv. Hver getur munurinn verið heilbrigðislega eða út frá umhverfissjónarmiðum á vörum sem fluttar eru inn samkvæmt tollasamningi annars vegar og hins vegar vörum sem fluttar eru inn með tollum eða vörum sem eru fluttar inn á undanþágu frá tollum vegna vöruskorts á landinu? Ég furða mig dálítið á þessari röksemdafærslu og þætti gaman að fá meiri dýpt í röksemdir hv. þingmanns.