145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

þunn eiginfjármögnun og skattasamningar við álverin.

[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Samningar og lagaumgjörð um stóriðju hér á landi tók breytingum með samningum um byggingu álvers á Reyðarfirði. Þar var m.a. samið um að skatthlutfallið mætti ekki hækka í framtíðinni og ekki mætti breyta reglum um frádrátt af vaxtagjöldum. Það þýðir einfaldlega að ekki megi setja reglur um þunna eiginfjármögnun fyrir álfyrirtæki eins og flest ríki hafa gert og margsinnis hefur verið bent á að nauðsynlegar væru hér á landi. Með tilkomu samninganna við Alcoa og Reyðarál voru skattasamningar hinna álveranna endurskoðaðir og nú gildir um þau líka bann við hækkun skatthlutfalls og bann við takmörkunum á frádráttarbærni vaxtagreiðslna. Skattleysi Alcoa sem sagt var frá í fréttum Ríkisútvarpsins um helgina og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var spurður um er því vegna ákvæða í fjárfestingarsamningnum við fyrirtækið sem kom í veg fyrir að takmarkanir séu settar á vaxtagreiðslur úr landi. Mér sýnist að eigi lög sem hæstv. ráðherra boðaði í fréttunum um þunna eiginfjármyndun að ná til álveranna sem starfa í landinu, verði að endurskoða fjárfestingarsamningana. Ég vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann sé sammála því að leiðin út úr þessari klemmu sé endurskoðun samninganna við álverin og hvort hann telji mögulegt að skapa góða samningsstöðu við þau um þessi mál.