145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

veiðigjöld og fjármögnun rannsókna í sjávarútvegi.

[15:32]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem verður kosið um núna er hvernig þjóðin á að fá að njóta tekna af auðlindum sínum. Arðgreiðslur í sjávarútvegi hafa hækkað frá því að hafa verið 5,3 milljarðar á árinu 2011 í 13,5 milljarða á síðasta ári. Veiðigjöld hafa á sama tíma lækkað frá því að vera 13 milljarðar árið 2011 eða 2012 í að vera 5,3 milljarðar á síðasta ári. (Gripið fram í.) Þetta eru opinberar tölur, virðulegi forseti.

Æ sér gjöf til gjalda, segir máltækið, kannski veiðigjalda í þessu tilfelli. Ég vil spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra hvernig hann telji rétt að fjármagna rannsóknir, atvinnuþróun og nýsköpun í auðlindagreinum eins og sjávarútvegi úr því að hann og hans ríkisstjórn sér ástæðu til að lækka svo mjög veiðigjaldið á sjávarútvegsfyrirtækin. Það var eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar að afnema fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem byggði á því að nýta veiðigjöldin til samfélagslegra verkefna, til þess að fjármagna rannsóknir í sjávarútvegi, til þess að sinna nýsköpun og atvinnuþróun en líka til þess að standa undir mjög mikilvægri innviðauppbyggingu á borð við stór samgöngumannvirki sem allir atvinnuvegir þurfa á að halda, ekki síst sjávarútvegurinn.

Ég vil spyrja virðulegan ráðherra: Hvernig vill hæstv. ráðherra fjármagna þessa hluti úr því að veiðigjöldin eiga ekki að koma þar inn? Hvernig vill hann tryggja fjármögnun t.d. innviðauppbyggingar í framtíðinni? Sér ráðherrann fyrir sér að auðug atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn eigi ekki að skila frekari tekjum í ríkissjóð en nú er? Sér hann fyrir sér óbreytt ástand í þeim efnum?