145. löggjafarþing — 145. fundur,  5. sept. 2016.

skattafsláttur af ferðakostnaði til og frá vinnu.

831. mál
[16:25]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða þá hugmynd að ríkið gefi skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu, sem mundi væntanlega nýtast helst á þeim svæðum þar sem verið er að sameina atvinnusvæði eða þar sem búseta manna er með þeim hætti að það er orðinn lítill þröskuldur á milli höfuðborgarinnar og t.d. svæða á borð við Vesturland þar sem íbúar bera augljóslega þungan ferðakostnað af því að vera í atvinnu á öðru svæði.

Hæstv. ráðherra talar um að það þurfi einfalt skattkerfi og þetta geti orðið flókið í framkvæmd. Einfalt skattkerfi fyrir hvern? Sími er mjög flókið tæki, en hann einfaldar líf mjög margra. Við erum hér að tala um að einfalda líf fólks, auðvelda líf fólks. Því miður virðist það vera áhersla þessarar ríkisstjórnar að gefa afslátt af öllu öðru en því sem kannski raunverulega skiptir máli, gefa afslátt af veiðigjöldum (Forseti hringir.) afnema auðlegðarskatt, (Forseti hringir.) en það kemur ekki til mála (Forseti hringir.) að veita skattaívilnun fólki (Gripið fram í.) sem býr (Forseti hringir.) við íþyngjandi aðstæður.