145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

framhald og lok þingstarfa.

[17:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. stjórnarliðar fari ekki á límingunum yfir því að hér sé hafið einhvers konar málþóf yfir þeirri sjálfsögðu spurningu hvernig virðulegur forseti sjái fyrir sér að þingið haldi áfram. Hérna erum við á mánudegi. Strax í lok seinustu viku var maður farinn að velta fyrir sér hvernig menn ætla að hafa þetta. Enn þá liggur ekkert fyrir um neinn lista yfir mál um hvernig menn ætla að haga þessu þingi. Það skiptir máli að við vitum það. Við erum á leiðinni í kosningar. Það hefur áhrif. Það þýðir að fólk er fjarverandi. Það þýðir að fólk þarf að huga að öðrum málum. Það þarf að geta skipulagt sig, sem er nú heldur sjálfsögð krafa almennt í samfélaginu. Því leita ég eftir svörum hjá virðulegum forseta um hvort eitthvað sé að frétta af hvaða mál meiri hlutinn hyggist klára eða hvort umræðum sé haldið áfram meðal þingflokksformanna um þessi efni eða hvað sé hér almennt í gangi.