145. löggjafarþing — 146. fundur,  5. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður um tollamálin. Ég er ekki sammála síðasta ræðumanni að öllu leyti. Það er alveg ljóst. Ég hefði haft áhuga á að heyra hvað framsóknarmönnum finnst um þessa tollasamninga. Viðhorf þeirra hafa almennt ekki komið fram í þessum umræðum. Það hefði verið áhugavert að eiga samtal við þá því að það hefur komið fram hjá einhverjum sjálfstæðismönnum sem hafa talað að þau eru þessu afar hlynnt flest.

Mig langar að byrja á að fara í það sem var verið að ræða en dregið var í efa, að öll matvara erlendis frá væri meira og minna menguð og fólki liði samt ágætlega og allt það. Til er mjög áhugaverð grein sem ber yfirskriftina: „Þingmenn þrettán landa ESB pissuðu plöntueitri.“ Þar er farið yfir þær áhyggjur sem uppi eru vegna notkunar skordýraeiturs og gróðureyðingarefna í landbúnaði víða um lönd þar sem leiddar hafa verið að því líkur að þetta sé farið að hafa áhrif á heilsu fólks sem neytir afurða þar sem slík efni eru notuð til framleiðslunnar. Þetta er Roundup sem margur Íslendingurinn hefur kannski heyrt af og opinberar stofnanir hafa notað töluvert. Það ætti náttúrlega að banna. Þetta er baneitraður fjandi. En Evrópusambandið frestaði samt sem áður í annað sinn í maí á þessu ári að greiða atkvæði um að staðfesta bann við notkun þess innan ESB. Þetta inniheldur glýfosat sem er mest notaða plöntueitrið í landbúnaðinum í Evrópu. Þetta er auðvitað bisness, ekkert annað. Árið 2011 er notkunin á þessum glýfosatgróðureyðingarvörum 650 þúsund tonn. Árið á undan var söluandvirðið um 6,5 milljarðar bandaríkjadollara. Það eru gríðarlegir hagsmunir undir hjá þeim sem framleiða þetta. Það hefur verið talað um að það geti tvöfaldast frá því 2011 til loka næsta árs. Það er talað um að um 85% af erfðabreyttu korni árið 2012 hafi verið með innbyggt þol fyrir þessum gróðureyðingarefnum.

Það hefur líka komið inn til Evrópusambandsins vaxandi fjöldi umsókna um að fá að rækta erfðabreytt korn. Það er eitt af því sem hefur verið lykilatriði í TTIP-tollaviðræðunum við Bandaríkin. Observer birti einhver leyniskjöl sem hafa verið í umræðunni þar sem ESB var að bjóða heilmikinn tollaafslátt sem hefur í för með sér að bandarískt nautakjöt á greiða leið inn í Evrópusambandið. Eins og þeir sem vita eitthvað um þessi mál er kunnugt er það framleitt að stórum hluta með erfðabreyttu kornfóðri.

Vinir jarðar eru samtök sem hafa látið sig þetta mál varða. Tölur þeirra bera með sér að glýfosat hafi fundist í þvagi 44% þeirra sýna sem tekin voru í 18 Evrópulöndum. Það er mestmegnis úr Roundup en líka önnur efni. Evrópusambandið opnar ekki fyrir þessar tölur, þ.e. um magn gróðureyðingarefna sem notað er í löndum sambandsins. Glýfosat er algengasta eiturefnið í landbúnaði í Bretlandi og líka í kringum 35% af illgresiseyðisnotkuninni í Danmörku. Í Þýskalandi hefur því verið úðað á um 4,3 milljónir hektara árlega eða tæp 40% af ræktarlandinu. Það liggur því alveg fyrir að notað er gríðarlega mikið af hættulegum efnum. Það var í apríl sem opinberuð var rannsókn á þvagsýnum sjálfboðaliða, þingmanna innan ESB, þar sem 48 þingmenn frá 13 ESB-löndum tóku þátt og lögðu fram þvagsýni. Flestir voru frá Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi. Í öllum sýnunum sem skoðuð voru fannst þetta eiturefni. Það fundust að meðaltali 1,7 míkrógrömm af glýfosati í þvagi hvers þingmanns, það er 17 sinnum meira en heimilt er t.d. í drykkjarvatni í Evrópu. Hlutfallið var misjafnt, allt frá fimm sinnum meira en í drykkjarvatninu og upp í 42 sinnum meira. Hæsta glýfosathlutfallið var í þingmönnum frá Litháen, Spáni og Króatíu, en lægsta í Finnlandi, Írlandi og Ítalíu. Niðurstaðan var í raun sú að maturinn sem þingmennirnir neyta í mötuneyti þingsins inniheldur þetta glýfosat í umtalsverðu magni.

Önnur þýsk rannsókn, Urinale 2015, var með 2 þúsund sýni. Þar kom í ljós að 99,6% þátttakenda voru með yfir 1% af glýfosati miðað við viðmiðunarmark í drykkjarvatni í líkama sínum.

Það er líka að finna í þýskum bjór. Í einni af þekktustu bjórtegundum Þýskalands var magnið allt að 30 míkrógrömm í lítra, eða þrítugfalt það magn sem eðlilegt er talið í vatni. Í rannsókn sem var gerð var á 48 bændum, konum þeirra og 80 börnum í Bandaríkjunum árið 2004 greindist miklu meira innihald af þessum óþverra en í þingmönnunum. Það er því alveg ljóst að það sem við höfum státað af á Íslandi, að vera með nánast sýklalausa og heilbrigða framleiðslu, hlýtur að skipta máli. Með þetta eins og annað þá er þetta vaxandi heilbrigðisvandamál. Það hefur m.a. komið fram hjá landlækni. Auðvitað þyrftum við að gera slíka rannsókn á Íslandi og er löngu tímabært og væri mjög áhugavert að gera bæði rannsókn á þeim sem ferðast mikið og þeim sem ferðast sáralítið og borða mestmegnis innlenda framleiðslu. Ég held að það væri hið raunsanna viðmið sem mundi fást og kannski sýna stöðu íslensks landbúnaðar eins og hún raunverulega er.

Hér var líka talað um matvælasýkingar. Við getum ekki horft fram hjá ábendingum landlæknis o.fl. þar sem kemur fram að við ferjum um gríðarlangan veg mjög mikið af þeirri fæðu sem við erum með á borðum dagsdaglega, ávexti og grænmeti. Eins og ég sagði í ræðu fyrir helgi í búvörulögunum þá fáum við kannski epli frá Kína og þau eru voða falleg á grænmetismörkuðunum. En það er eitthvað sem heldur þeim fallegum. Þau ferðast þúsundir kílómetra. Þau koma ekki öll sama dag til okkar en þau haldast falleg lengi áfram. Þetta eru viðkvæmar vörur, eins og við vitum. Það hlýtur eitthvað að hafa gengið á fyrst þau geta ferðast þúsundir kílómetra og samt verið svona falleg. Ég er ekki alltaf viss um hvaðan maturinn sem ég neyti dags daglega kemur.

Svo eru það neikvæðu áhrifin og vistsporið sem flutningarnar hafa í för með sér. Maður á að geta treyst því að matvælin sem maður er með fyrir framan sig séu framleidd við bestu skilyrði, án eiturefna og séu laus við óværu og sjúkdóma. Það á örugglega eftir að koma í ljós. Þetta er vaxandi vandamál í heiminum. Hnattvæðing matarforðans veldur því að matvælasýkingar koma enn frekar og meira upp á yfirborðið en hefur verið. Það er talað um að í Bandaríkjunum einum saman valdi sýklar úr mat um það bil 48 milljónum veikindatilfella og hundruð þúsunda sjúkrahússinnlagna og alls konar þess háttar. Ég held að það sé óábyrgt að halda því fram og alhæfa að allir þeir sem fara til útlanda og borða erlendan mat eða búa þar lifi ágætu lífi o.s.frv. og þess vegna sé ekkert hættulegt við að flytja inn. Það er ekki allur matur mengaður eða yfir mengunarstöðlum. En þetta er vissulega eitthvað sem við eigum ekki að kynda undir, ekki frekar en einhverju öðru.

Hér var líka nefnt að skortur væri á kjöti sem hefði orðið til þess að innflutningur hefði aukist og að það mundi hafa lítil áhrif á markaðinn þótt innflutningur væri aukinn. Ég er því ekki sammála. Auðvitað hlýtur það að hafa ýmislegt í för með sér ef flutt er inn í samkeppni vara og ekkert vitað um aðbúnaðinn, því að það gilda ekki sömu reglur. Við skulum átta okkur á því. Við settum sem betur fer reglur varðandi velferð dýra. Við ætlumst til þess að kýrnar gangi úti á sumrin. Ég held að það sé ekkert, og verð þá leiðrétt ef einhver veit betur, annað land en Noregur sem það gerir. Við setjum bændum okkar miklu stífari skilyrði en lönd sem við segjum að heimilt sé að flytja inn frá. Það eru líka öfugmæli. Það er hvorki sanngjarnt né erum við samkvæm sjálfum okkur ef það á að verða niðurstaðan.

Það vantar alla greiningu á þessum afleiðingum. Það er morgunljóst. Það eru Bændasamtökin ein sem koma með greiningu. Ráðuneytið kemur með þetta algerlega óklárt og illa unnið, leyfi ég mér að segja. Það er ekkert um afleiðingar sem þetta hefur fyrir íslenskan landbúnað, hvorki fyrir hinar dreifðu byggðir né yfir höfuð. Ég held að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál án þess að það liggi fyrir. Ég vona svo sannarlega að við sjáum að okkur með þetta. Talað er um að afnám tolla hafi engin áhrif eða lítil á bændur en það gerði það annars staðar, t.d. í Danmörku. Afkoman versnaði mjög. Það varð hrina gjaldþrota, sérstaklega í hvíta kjötinu. 200 fjölskyldubú fóru á hausinn, hef ég einhvers staðar lesið. Þar var fyrst og fremst vegna þess að verðið var svo lágt fyrir mjólkina og svínakjötið. Það er ekki ósennilegt að það verði afleiðing þess þegar tollarnir koma hér að fullu inn. Mér finnst það ekki siðferðislega í lagi. Við erum að kaupa jafnvel styrkt innflutt kjöt eða önnur matvæli við aðstæður sem við höfum ekki hugmynd um hvernig eru. Við getum ekki tryggt uppruna. Það er líka eitt sem er ekki í lagi. Þetta er eitthvað sem ég get alla vega ekki tekið undir. Og svo er það líka þetta, eins og ég er búin að benda áður á, að við höfum haft tækifæri, samkvæmt 25. gr. dýravelferðarlaga, sem varðar dreifingu og merkingu dýraafurða, það er hægt að banna eða takmarka innflutning frá löndum sem gera ekki jafn ríkar kröfur um aðbúnað dýra og íslensk lög kveða á um, en það hefur ekki verið nýtt fram til þessa. Þá erum við að bjóða íslenskum bændum upp á ójafnan samanburð, þegar við ætlumst til þess að þeir framleiði vöru við miklu stífari skilyrði en bændur okkar þurfa að gera.

Ég held að það sé 0,009% sem markaðurinn sem við fáum aðgang að er á móti miklu stærra aðgengi í hlutfalli við þjóðina. Við erum bara 330 þúsund og erlendi markaðurinn margfalt stærri. Íslenskir bændur fá ekki sambærilegan aðgang og ESB fær inn til okkar. Það er líka eitt af því sem er svo mikið ójafnræði í, ef við horfum á það. Hér hefur verið talað um ostana og að flytja inn osta sem ekki eru framleiddir hér. Vissulega er það allt í lagi en þá fyndist mér að við þyrftum að skoða þetta. Eru dýrin í sambærilegri aðstöðu? Eru kröfurnar til þeirra sem flytja inn þær sömu og við gerum hér? Af hverju gerum við þessar kröfur hér en finnst í lagi að gera þær ekki annars staðar? Svo er því haldið fram að þetta hafi ekki áhrif á íslenska ostamarkaðinn en auðvitað hefur þetta allt áhrif. Það er alveg ljóst. Ég ætli ekki endilega að segja að ég leggist gegn innflutningi á erlendri vöru, það má ekki túlka orð mín þannig. Mér finnst bara hættan vera fyrir hendi á mörgum stöðum og svolítil hræsni í því, sérstaklega varðandi þær kröfur sem við gerum.

Í einni af umsögnunum sem bárust við þetta mál er tekið fram að ástæða sé til þess að geta þess að allur tollkvóti ESB, þ.e. varðandi afurðir hér, mjólkurafurðirnar, sé á formi birgðavöru þar sem geymsluþol er í mánaðavís en stærsti hluti tollkvóta frá Íslandi er ferskvara þar sem geymsluþolið er um 30 dagar. Við erum að tala um allt aðra vöru, ferskvöru annars vegar og vöru með miklu lengri líftíma hins vegar. Það er ekki líku saman að jafna.

Það hefur líka komið fram varðandi þessa tolla og í umræðunni fyrir helgina að innflutningurinn á fuglum og svíni væri fyrst og fremst frá öðrum norrænum löndum þar sem staðan væri svipuð hvað varðaði sýklalyfjaónæmi. Á síðasta ári voru 43% af svínakjöti flutt inn frá Danmörku. Það var ekki flutt inn frá neinu öðru norrænu ríki. Það voru 27% frá Spáni og 20% frá Þýskalandi. Sama má segja um kjúklinginn, 25% kom frá Danmörku, 60% frá Þýskalandi en ekkert annað frá hinum norrænu ríkjunum, bara svona til að hlutirnir séu réttir. Það skiptir líka máli þegar verið er að ræða hvaðan kjötið kemur. Þetta snýr að mjög mörgum. Þetta er mikilvægt í stóra samhenginu. Ef það verður þannig að svínakjötsinnflutningur eykst mjög mikið sem verður til þess að grafa undan mörgum svínabúum þannig að við getum nánast talað um hrun í greininni, þá verður að hafa í huga að það er t.d. sú framleiðsla sem heldur sláturstöðvunum við efnið allan ársins hring. Sauðfjárbændur slátra ekki nema kannski tvo mánuði á ári. Kornið eða fóðrið mundi hafa áhrif á hækkandi verð til handa þeim bændum sem eftir stæðu. Það er mjög margt í keðjunni sem getur haft áhrif þarna. Ég hvet meiri hlutann til þess að skoða þetta betur en hefur verið gert. Það er óábyrgt af þinginu að afgreiða svona viðamikið mál eins og hér er undir án þess að taka tillit til þeirra aðvarana sem hafa verið raktar í umsögnum frá mjög mörgum aðilum, ekki bara bændum heldur líka frá landlækni o.fl. Það þarf að greina þetta. Ráðuneytið hefur haft tíma til að láta greina þetta. Mér vitanlega hefur það ekki komið fram. Ég verð þá leiðrétt ef það er þannig. Þetta er í mínum huga eins og óútfylltur tékki. Hverjar eiga mótvægisaðgerðirnar að vera? Þær eru ekki nægjanlegar í búvörusamningnum varðandi aðbúnað eða annað slíkt til að mæta þessu, hvorki hjá svína-, eggja- né kjúklingabændum. Það er ljóst að gera þarf miklu meira ef við ætlum að reyna að bjóða bændum upp á viðunandi skilyrði sem geta orðið til þess að þeir geti tekist á við það sem fram undan er.

Frú forseti. Ég hef farið yfir þau atriði sem ég hef áhyggjur af. Ég hef lesið mjög mikið og reynt að kynna mér það sem um þetta hefur verið sagt og skrifað, ekki bara, svo því sé haldið til haga, af hálfu bændaforustunnar heldur líka fleiri aðilum og erlendis frá, eins og ég benti á varðandi t.d. það sem gerðist í Danmörku. Við erum ekkert öðruvísi en önnur lönd hvað það varðar. Við þurfum að vera klár á því hvað þetta þýðir í öllu tilliti fyrir neytendur og byggðina í landinu.