145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú standa yfir prófkjör hjá flestum flokkum og við eigum mikið undir því að fólk treysti stjórnmálaflokkunum og þeim aðferðum sem þeir nota við val á frambjóðendum. Ég verð að segja að mér er brugðið yfir fréttaflutningi af því gerræði og því virðingarleysi fyrir réttum leikreglum lýðræðisins sem hefur birst í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi. Talsmaður flokksins kemur fram í útvarpsviðtali og segir að listinn sem valinn var hafi verið felldur í staðfestingarkosningu því að oddviti listans hafi orðið uppvís að hegðun sem við teljum ekki ásættanlega. Glæpnum er svo lýst í viðtalinu, hann er sá að oddvitinn fékk 20–30 manns til að ganga í flokkinn til að kjósa sig. Það eru nú býsna margir glæpamenn í íslenskum stjórnmálum ef þetta er höfuðsynd. Ég hlýt að spyrja hvort þingmenn Pírata hafi aldrei fengið neinn til að ganga í flokkinn. Eru þeir ekki í framboði til að afla fylgis?

Talsmaður flokksins, sem vel að merkja er svo líka í framboði í kjördæminu og tapaði í nefndu prófkjöri, bítur svo höfuðið af skömminni þegar hann segir orðrétt: „… samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem voru birt um kosninguna, þá kusu 18 af þessum eingöngu hann og engan annan í prófkjörinu …“

Virðulegi forseti. Hér eru hrikaleg ummæli viðhöfð. Annaðhvort hafa píratar brotið gegn grundvallarreglum lýðræðisins um frjálsar kosningar og gegn skýrum ákvæðum laga um persónuvernd með því að hafa atkvæði fólks rekjanleg eða þá að talsmaður flokksins er að bera út róg um einstaka þátttakendur í lýðræðislegri kosningu. Hvor skýringin sem er ætti að duga til að dæma þessa stjórnmálahreyfingu úr leik.

Og enn og aftur: Hver er glæpurinn? Því að nú þegar seint og um síðir er upplýst um tölfræðilegar forsendur prófkjörs Pírata á höfuðborgarsvæðinu þá kemur í ljós að fjöldi manns gekk til liðs við flokkinn fyrir prófkjörið og 7,8% þátttakenda kusu bara einn frambjóðanda. Það var satt að segja algengasta samsetningin á kjörseðlinum. Af hverju er ekki búið að ógilda það prófkjör? Er það af því að þar var rétta fólkið kosið?

Virðulegi forseti. Þessi vinnubrögð grafa með réttu undan (Forseti hringir.) tiltrú á stjórnmálin og flokkur sem gengur svona fram getur ekki lesið öðrum lexíur um persónuvernd, gagnsæi, upplýsingaöryggi og réttar leikreglur lýðræðisins.


Efnisorð er vísa í ræðuna