145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú bara að viðurkenna að ég er ekki kennari og get ekki svarað því mjög ítarlega hvernig best sé að sinna jafnréttisfræðslu eða þá hvað hún ætti nákvæmlega að fela í sér, enda er þar heil fræðigrein á bak við um það hvernig á að kenna alls konar fög, sem aðrir hv. þingmenn, sem reyndar eru margir hverjir fyrrverandi kennarar eða skólastjórar eða hvað eina, gætu sagt til betur um en ég.

En aftur á móti held ég að það dugi aldrei til. Það er auðvelt að ætla sér að laga öll heimsins vandamál með því að kenna þau í grunnskólum. Það er varla til það vandamál sem enginn hefur stungið upp á að verði leyst með því að fræða börn um efnið í grunnskólum. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að rökfræði ætti að vera grunnfag, að fólk ætti að læra rökfræði í sex ára bekk. Ég held reyndar að mjög margt mundi breytast í samfélaginu á 20–30 ára tímabili ef það yrði gert og að það mundi færa allt til betri vegar. Ég hef heyrt stungið upp á því að krökkum sé kennt að umgangast hunda til þess að þeir bíti síður. Maður hefur heyrt um svo margt sem æskilegt væri að kenna í skólum.

En það má ekki skilja mig sem svo að ég sé á móti þessu, ég er að sjálfsögðu hlynntur því að jafnrétti sé kynnt í skólastarfi og að þar sé jafnréttisfræðsla almennt. En til þess að ná því markmiði í hinum menningarlega hluta samfélagsins er nauðsynlegt að við reynum eftir fremsta megni að horfa ekki hvert á annað sem einhverja tegund af einstaklingum heldur sem einstakling sem hefur alls kyns einkenni, þar á meðal kyn og ýmislegt fleira. Við verðum að passa að láta það ekki trufla okkur og við þurfum að gera okkur grein fyrir því þegar við látum þessi einkenni hafa áhrif á hvernig við lítum á manneskjuna.

Það getur verið margt fleira. Kyn er bara einn þáttur sem er svolítið ráðandi og áberandi í samfélaginu vegna þess að kynin eru jú ólík. Þess vegna eru þau kölluð kyn. Það geta t.d. verið ómeðvitaðir fordómar gagnvart lágvöxnu fólki. Það er alþekkt að hávaxið fólk hefur gjarnan hærri laun en aðrir. (Forseti hringir.) Þetta er almennur hugsunarháttur sem ég held að verði ekki leystur með skólastarfinu einu og sér. Ég held að það þurfi viðhorfsbreytingu í samfélaginu. Hún þarf í raun að vera í miklu víðara samhengi en bara gagnvart kyni.