145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[20:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir andsvarið og finnst það jafnframt mikilvægt sem kom fram í máli þingmannsins um að nefndin hafi rætt málið mjög ítarlega og fundist það flókið í meðförum. Það gleður mig að heyra að þannig hafi umræðan í hv. nefnd verið.

Nú á ég ekki sæti í hv. velferðarnefnd þó svo ég hafi öðru hvoru dottið þar inn á fundi sem varamaður, þannig að ég hef ekki fylgt þessu máli eða umræðu um það frá A til Ö og þekki þess vegna ekki öll þau rök sem dregin hafa verið fram í meðförum nefndarinnar á málinu þótt ég hafi kynnt mér þær umsagnir sem nefndinni bárust.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lausnina á því hvernig tryggja megi eða koma megi til móts við þau börn eða jafna stöðu þeirra barna sem fæðst hafa með staðgöngumæðrun þó svo það falli ekki undir íslenska löggjöf, ég verð bara að viðurkenna það. En ég tel hins vegar og er sammála því að mikilvægt sé að reyna að tryggja jafna stöðu barna, börn ráða auðvitað engu um það hvernig þau verða til og koma í þennan heim, en ég hygg að einmitt hitt atriðið sem Ljónshjarta og umboðsmaður barna leggja til, það séu mun fleiri börn sem það ákvæði eigi í rauninni við um. Þess vegna (Forseti hringir.) megi líka færa rök fyrir því að sé nærtækara að byrja á þeim enda.