145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með síðasta ræðumanni. Auðvitað eigum við ekki að leyfa dýraníð á Íslandi og við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur og allt sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir það.

Herra forseti. Ég hef á þessum vettvangi nokkrum sinnum gert kjarnorkuvopn og kjarnorkuafvopnavæðingu að umtalsefni. Fyrr á þessu ári kom saman vinnuhópur 123 ríkja Sameinuðu þjóðanna sem vill finna leiðir til að banna og útrýma kjarnorkuvopnum. Ísland tók hins vegar ekki þátt í þeirri vinnu. Því miður kom að því 19. ágúst sl. að greiða atkvæði um skýrslu sem þessi vinnuhópur skilaði af sér. Þar greiddi Ísland ekki atkvæði heldur sat hjá. Þegar á hólminn hefur verið komið hefur Ísland ítrekað skipað sér í hóp með kjarnorkuveldunum og ef Ísland hefur hreinlega ekki greitt atkvæði gegn því að kjarnorkuvopn verði bönnuð höfum við í besta falli setið hjá. Af þessum ástæðum hef ég beint tveimur fyrirspurnum til hæstv. utanríkisráðherra, annars vegar til að fá svör við því hver ástæðan sé fyrir því af hverju við sátum hjá í þessari atkvæðagreiðslu í ágúst sl. og hins vegar til að spyrja að því hvort fulltrúi Íslands muni styðja tillögur þess efnis að á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna verði boðað til ráðstefnu árið 2017 með þátttöku alþjóðastofnana og borgarasamtaka (Forseti hringir.) sem yrði opin öllum ríkjum með það að markmiði að semja um lagalega bindandi leiðir til að banna kjarnorkuvopn og stuðla að útrýmingu þeirra. Það er nefnilega mikilvægt að við tökum afstöðu í þessu, sama hvaða kjarnorkuveldi eiga í hlut.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna