145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Eins og ég skil ráðherrann hefur Ísland í sjálfu sér ekki sjálfstætt markmið í þessu máli heldur hyggst verða samferða Evrópusambandinu.

Ég vil samt freista þess að fá skýrari svör frá hæstv. ráðherra og spyr: Hvaða sjónarmiðum ætlar Ísland að halda til haga við borðið ásamt Noregi á fundum með Evrópusambandinu um þessa sameiginlegu framkvæmd? Eða telur utanríkisráðherra að Ísland eigi í sjálfu sér ekkert sjálfstætt erindi að þessu borði heldur dugi að taka við niðurstöðum Evrópusambandsins? Væri þá kannski einhverjum brugðið, jafnvel Bleik, í því að utanríkisráðherra Framsóknarflokksins teldi ekki að Ísland þyrfti að eiga sjálfstæða rödd við borðið heldur léti Evrópusambandinu það eftir í þessum málaflokki.

Hæstv. ráðherra kom sérstaklega að þingsályktunartillögu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um orkuskipti. Við höfum líka úrgangsáætlanir frá hæstv. umhverfisráðherra og ég spyr: Telur hæstv. ráðherra fullnægjandi þá stöðu sem við erum með núna að því er varðar einstakar, stórtækar áætlanir í íslensku stjórnkerfi, hvort sem þær lúta að sorpmálum, orkuskiptamálum, samgöngumálum eða hverjum öðrum þeim málum sem kunna að varða losun gróðurhúsalofttegunda? Telur ráðherrann að þessum áætlunum sé þannig fyrir komið að þær miði allar að þessu sameiginlega markmiði, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?

Loks vil ég spyrja ráðherrann hvort hann telji það ekki verðugt markmið að vera samferða ýmsum nágrönnum okkar um kolefnishlutlaust samfélag (Forseti hringir.) innan tiltekinna marka, til að mynda fyrir árið 2050.