145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins. Svo það sé enn og einu sinni sagt, þó að það hafi komið hér vel fram í andsvörum, er um að ræða mikið fagnaðarefni fyrir Ísland og auðvitað á sínum tíma fyrir heimsbyggðina alla, en tiltekinn hópur ríkja þarf að fullgilda Parísarsamninginn til að því ferli sé lokið.

Ég hef verið að freista þess í andsvörum að kalla eftir skýrari stefnu núverandi og fráfarandi ríkisstjórnar en hef ekki fengið skýr svör hvað það varðar, en það tel ég að hljóti að vera mikilvægt verkefni fyrir alla stjórnmálaflokka núna í aðdraganda kosninga að geta svarað spurningunni um loftslagsstefnu Íslands eða hvernig við sjáum hana vera og hvert við teljum vera skynsamlegt og, jú, metnaðarfullt markmið Íslands við samningaborðið og þegar kemur að því að semja við Evrópusambandið ásamt Noregi um sameiginlega framkvæmd.

Mig langar líka til að benda á og árétta mikilvægi þess að við horfum á þennan málaflokk í samhengi við alla aðra málaflokka. Kannski er þetta einmitt málaflokkur sem ætti að vera yfir og allt um kring. Sum ríki hafa meira að segja gengið svo langt að hafa sérstakt loftslagsráðuneyti sem heldur utan um þennan málaflokk, kannski einmitt vegna þess að loftslagsmálin varða ekki bara umhverfismálin í hefðbundnum skilningi heldur ekki síður mál sem lúta að orkumálum, samgöngumálum og, eins og kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, mál sem lúta einfaldlega að daglegu lífi og neysluháttum samfélagsins. Þannig er umræðan um loftslagsmál alltaf áminning um að málaflokkurinn er breiður og hann verður að tengjast og gegnsýra allt samfélagið og alla málaflokka þess. Þess vegna hef ég kallað eftir því, bæði hér í umræðunni og áður og víðar, að hin raunverulega loftslagsáætlun, hvort það er sóknaráætlun eða aðgerðaáætlun sem við eigum til frá árinu 2010 eða hverju nafni sem slík áætlun nefnist, þarf auðvitað að vera yfiráætlun sem fangar miklu fleiri málaflokka. Ég hef kallað eftir því í andsvörum við hæstv. innanríkisráðherra þegar hún mælti fyrir samgönguáætlun hver væru loftslagsmarkmið samgönguáætlunar. Ég tel að við verðum, ef við ætlum að ná að taka þau skref að draga umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda, geti það ekki verið einskorðað við eina tiltekna áætlun og aðgerðapunkta undir henni. Þess vegna þurfum við að gæta að þessari samtvinnun og við eigum einhverjar fyrirmyndir hér í stjórnsýslunni sem eru tilraunir til svona samþættingar. Ég vil nefna eina aðferð sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur talað fyrir og komið til framkvæmda sem heitir Stjórnstöð ferðamála, sem hefur þó legið undir ámæli fyrir allt mögulegt. Það er að minnsta kosti tilraun til að leiða saman þá ráðherra og þá málaflokka sem tengjast málinu með einhverjum hætti og mætti velta fyrir sér hvort slíkt ráð þyrfti að vera til þegar loftslagsmálin eru annars vegar. Þingmál um loftslagsráð hefur fengið afgreiðslu í gegnum Alþingi. Þar er um að ræða loftslagsráð sem hefur það meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og hafi skilgreind verkefni þar um og sé samráðsvettvangur þeirra aðila sem hafa bæði beina og óbeina aðkomu að þessum málaflokki.

Mig langar líka að víkja að þeirri staðreynd og held að ekki verði undan því vikist að nefna það að áhöld eru um að Parísarsamkomulagið sem slíkt muni ná markmiðum sínum um hlýnun andrúmsloftsins undir tveimur gráðum. Menn hafa meira að segja sagt sem svo og örugglega með rökum að Parísarsamkomulagið í núverandi mynd í raun og veru sé nær 2,7° í hlýnun. Það er einfaldlega of mikið, allt of mikið. Climate Action Network hefur bent á þetta. Í ljósi þess voru sett sérstök ákvæði í Parísarsamkomulagið um að endurskoða markmiðin reglulega vegna þess að menn töldu vera innstæðu fyrir þessum efasemdum. Að samkomulagið sem slíkt væri ekki nægilega öflugt til að ná þessum markmiðum. Það er þannig að við erum að horfa á algerar hamfarir og stöðu þar sem verður ekki snúið við ef við erum komin að svo mikilli hlýnun jarðar. Ábyrgðin er mikil og kannski einna mest hjá okkur sem erum í hinum iðnvædda hluta heimsins. Menn hafa sagt að 1,5° sé í raun og veru það sem við þolum, það sem heimurinn þolir, hvort sem það er mannskepnan eða aðrir þættir vistkerfanna.

Aðildarríki loftslagssamningsins þurfa þá að öllum líkindum að gera enn betur en við höfum verið að tala um ef við ætlum að halda okkur þar. Það að vera metnaðarfullur þýðir sennilega það að stíga skref sem eru enn þá framar en áður hafa verið nefnd. Eins og kom fram í andsvörum mínum áðan er orðið „metnaðarfullt“ nokkuð algengt í þeim stutta tillögutexta sem hér er undir. En til þess að uppfylla þau sjónarmið sem það ágæta orð felur í sér þurfum við að gera enn betur. Jafnvel og sennilega þurfum við að stefna að því að ná því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust eða a.m.k. að draga mun meira úr losun gróðurhúsalofttegunda en lítur út fyrir að verði við óbreytt ástand.

Ég vil líka nefna, af því að ég var að tala um samþættingu ýmiss konar áætlana, að á síðasta kjörtímabili sem var nú sennilega með því sviptingasamasta frá lýðveldisstofnun urðu þó mjög jákvæð tíðindi hér í þingsal þegar við samþykktum með öllum greiddum atkvæðum þingsályktunartillögu um grænt hagkerfi. Það var einmitt tillaga sem snerist um tölusettar tillögur í þá veru að færa þróun hagkerfisins með sem fjölbreyttustum hætti í átt að grænni og jákvæðri þróun, þ.e. að hvort sem um væri að ræða nýsköpun, þróun eða vöruþróun, matvælaframleiðslu eða hvað það væri, þá værum við að freista þess að gæta að því að vöxtur væri ekki á kostnað náttúruauðlinda og væri ekki á kostnað þeirra gæða sem við verðum að standa vörð um til langrar framtíðar.

Það olli þess vegna miklum vonbrigðum að við ríkisstjórnarskiptin 2013 voru þessar tillögur eitt af því sem var slegið út af borðinu, þá sennilega undir þeim formerkjum að þetta væru leifar frá fyrri ríkisstjórn og menn töluðu jafnvel um gæluverkefni og eitthvað slíkt. En ég tel að ekki verði undan því vikist að við tökum þessa áætlun upp aftur. Ég held og trúi því raunar að þar muni bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn vilja eiga aðkomu. Það snýst einfaldlega um það að horfast í augu við það að ef við ætlum að deila kjörum á þessari jörð til einhverrar framtíðar verðum við að gæta að því að vöxturinn sé ekki ágengur. Sú tillaga var góð. Þar voru tölusettar tilteknar aðgerðir og vera má að endurskoða þurfi þær, en ég mun leggja áherslu á það sjálf og vonast til að við getum orðið fleiri samferða í því að taka upp þennan þráð og reyna að þróa íslenskt hagkerfi í áttina að því að það grænkist. Og þar með að við drögum varanlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Vegna þess að við búum alltaf við þá erfiðu stöðu að sterkara hagkerfi, aukinn hagvöxtur, (Forseti hringir.) leiðir að jafnaði til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda og það besta fyrir loftslagið er því miður þegar hagkerfið dregst saman. Þetta er viðfangsefni sem við verðum að horfast í augu við.