145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og heyri þá að skilningur minn er réttur. Ég er hrædd um að það verði ansi mörgum lífeyrisþegum vonbrigði að sjá þetta, en gott og vel.

Það er annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í, það tengist því sem kom m.a. fram í máli hæstv. ráðherra áðan og lýtur að því að einfalda kerfið. Ég er alveg sammála því að kerfið er flókið og það er margt sem væri alveg ágætt að einfalda. En ég er þeirrar skoðunar að það megi ekki verða á kostnað sanngirni eða skilvirkni í kerfinu.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í töflu 3 sem er á bls. 32 í frumvarpinu. Þar kemur fram að atvinnutekjur munu valda verri útkomu hjá þeim sem eru í sambúð og með atvinnutekjur á bilinu 150–350 þús. kr. og þeim sem búa einir og eru með tekjur á bilinu 100–350 þús. kr. Ég vil spyrja út í hvort ráðherra hafi ekki áhyggjur af því að það vinni gegn sveigjanleika í starfslokum, að það geti fælt ákveðinn hóp frá því að vilja vinna lengur og þá hlutastarf.

Hins vegar langar mig að spyrja varðandi tímarammann vegna þátta sem lúta að öryrkjum. Megum við vænta þess að fá inn annað frumvarp hvað varðar öryrkjana og kjör þeirra fyrir þinglok? Eða hvað sér ráðherrann fyrir sér í þeim efnum?