145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

sektir í fíkniefnamálum.

[10:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert sérálit nema við eina tillögu af þessum 12. Ég held að ríkislögreglustjóri styðji flestar aðrar tillögur eða alla vega fulltrúi hans í hópnum. Það sem mér finnst mest um vert í þessum efnum, sem lýtur að þeirri samþykkt sem Alþingi gerði, er að þar er viljayfirlýsing um breyttar áherslur í meðferð og vinnslu þeirra mála sem falla undir fíkniefnalöggjöfina. Það er löngu kominn tími til í mínum huga að breyta um starfsaðferðir, breyta um viðhorf, fara að vinna meira með þessi mál sem heilbrigðismál frekar en glæpastarfsemi, þ.e. það sem snýr að fíklum. Þar er stærsta viðhorfsbreytingin.

Við þekkjum öll heitstrengingarnar um fíkniefnalaust Íslands árið 2000, hvernig það hefur gengið eftir, og frá þeim tíma, árinu 2000, hefur ekkert verið breytt um áherslur eða hugarfar. Þetta er smátt og smátt að koma, skýrslan og vinnan. (Forseti hringir.) Samþykktin á (Forseti hringir.) þingi er til vitnis um að það er hugarfarsbreyting (Forseti hringir.) að eiga sér stað í þessum málum. Ég fagna því.