145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[21:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum sammála um frágang málsins og fagna þeim einhug sem ríkir hér í kvöld. Um er að ræða mjög mikilvægan áfangasigur í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Ég vil nefna nokkrar framfarir sem hafa átt sér stað í því umhverfi núna á undanförnum árum, til að mynda aðgerðaáætlun Alþingis frá árinu 2012 um fatlað fólk og lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem voru samþykkt á árinu 2011, en þar er um að ræða réttindavaktina, kerfi persónulegra talsmanna og kerfi sérstakra réttindagæslumanna fatlaðs fólks svo eitthvað sé nefnt. Einnig vil ég nefna fullgildingu á svokölluðu OPCAT, breytingar sem hafa orðið á lögræðislögunum á árinu 2015 og tilraunaverkefni sem kallast notendastýrð persónuleg aðstoð sem var virkjað árið 2011. Hv. þm. Willum Þór Þórsson gerði einnig mjög vel grein fyrir breytingum og þeim góðu framförum sem hafa átt sér stað og munu eiga sér stað á þessu kjörtímabili.

Hins vegar lítum við líka til þess að til að við náum algjörlega utan um samninginn þá er þörf á frekari lagabreytingum. Þar nefni ég til að mynda frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk, breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, frumvarp til laga um bann við mismunun og frumvarp til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun.

Ég lít á það sem við erum að gera hér í kvöld, með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þannig að við séum að virkja enn frekar þann kraft þeirra aðila sem koma að þessari baráttu. Ég held að það sé gríðarlega þýðingarmikið að við náum að samþykkja þetta. Þess vegna tek ég heils hugar undir þá tillögu sem hv. þm. Kristján Möller lagði til að málinu verði vísað til utanríkismálanefndar vegna þess að þar getum við nýtt þær umsagnir sem nú þegar hafa komið fram og ef það verður til þess að við náum að flýta fyrir afgreiðslu málsins þá fagna ég því eindregið.

Vil ég þá ljúka máli mínu á því að segja að ég vísa þessari þingsályktunartillögu til hv. utanríkismálanefndar.