145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:11]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef þessu máli verður vísað til atvinnuveganefndar er það hneyksli. Þá er í raun og veru ekki farið eftir þingsköpum þar sem kveðið er á um hvernig eigi að skipa málum í nefndir. Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór vel yfir áðan var tekin sú ákvörðun á síðasta kjörtímabili að rammaáætlun ætti heima hjá umhverfisnefnd. Það er hvergi minnst á það í 13. gr. þingskapa að atgervi nefnda eigi að ráða nokkru um það hvaða málum er vísað þangað inn. Rök hæstv. umhverfisráðherra áðan eru fyrir neðan allar hellur og fá ekki á nokkurn veg staðist. Hér er grímulaust verið að reyna að taka viðkvæman málaflokk um ráðstöfun verndarsvæða í nýtingarflokk og skella honum inn í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ljóst má vera hvaða átektir málið fær. Þetta er fyrir neðan allar hellur (Forseti hringir.) fyrir umhverfismál sem málaflokk, verð ég að segja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)