145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru náttúrlega lög í landinu sem ráða því hvernig málum er skipað til nefnda. Það fer ekki eftir áhugasviði nefndarmanna. Við höfum t.d. fengið að sjá að formaður og varaformaður fjárlaganefndar eru mjög áhugasöm um fornleifarannsóknir en ekki sendum við frumvörp um Minjastofnun eða Þjóðminjasafnið til þeirra til meðferðar. Það er auðvitað þannig að hér er forsætisráðherra landsins búinn að segja, meðan hann var ráðherra umhverfismála, að eðlilegt væri að rammaáætlun í heild færi til umhverfisnefndar. Ég óttast það að ríkisstjórnin sé enn við sama heygarðshornið í umhverfismálum. Það standi til að fara að fordæmi Þorgeirs Hávarssonar og taka ófrið ef hann mögulega er í boði, að það eigi ekki að leita samstöðu á grundvelli rammaáætlunar um að koma málinu í gegn í friði og sátt heldur eigi að fara enn einn ganginn að leyfa hv. þm. Jóni Gunnarssyni og félögum hans að hnoðast með málið og skekkja það með tilviljanakenndum ákvörðunum, (Forseti hringir.) ekki á forsendum neinna efnisraka í tímahraki rétt fyrir þinglausnir. Það er ekki boðlegt.