145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:18]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst stjórnarandstaðan ekki samkvæm sjálfri sér vegna þess að í dag segir hún að hér eigi að fylgja þingsköpum en þegar greidd voru atkvæði fyrir um tveimur árum um hvort nokkrir virkjunarkostir ættu að fara í nýtingu vildi stjórnarandstaðan að tillagan færi í umhverfis- og samgöngunefnd, þvert gegn því sem þingsköp segja fyrir um.

Ég lít ekki á orð hæstv. umhverfisráðherra sem einhvers konar niðurlægingu í garð umhverfis- og samgöngunefndar, þvert á móti hefur hún sýnt nefndinni fullt traust og það hefur verið afskaplega góð samvinna á milli umhverfisnefndar, umhverfisráðuneytis og umhverfisráðherra sem hefur staðið sig með miklum ágætum. Ég treysti atvinnuveganefnd vel fyrir starfinu, hlustaði á orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem sagðist ætla að leita sátta en verð þó að segja að mér finnst þingsköpin óljós um (Forseti hringir.) hvort málið eigi að fara til atvinnuveganefndar eða umhverfis- og samgöngunefndar. Ég hef verið að skoða það og hallast að því að það gæti verið rétt að málið ætti að þessu sinni, samkvæmt þingsköpum Alþingis, frekar heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd.