145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

viðbrögð við skýrslu um aðgerðir í vímuvarnamálum.

[10:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki annað hægt en að taka undir að það þurfi að líta á málin með þessum gleraugum vegna þess að oft er um að ræða, og ég mundi reyndar segja langoftast eða næstum því alltaf, einstaklinga sem hafa ekki brotið gegn neinum og hafa ekki gert neitt af sér, að mínu mati, sem er þess valdandi að viðkomandi eigi skilið einhverja refsingu. En auðvitað er málaflokkurinn stærri en sú einfalda fullyrðing þótt rétt sé. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi orðið vör við einhver tiltekin viðbrögð, t.d. frá hinum ýmsu lögregluumdæmum eða ríkislögreglustjóra eða hinu svokallaða kerfi eða einhverju því um líku sem líst illa á þessar tillögur. Mér þykja tillögurnar svo sjálfsagðar, ég hefði reyndar viljað ganga lengra, en þetta er afrakstur vinnu sem allir skila sameiginlega fyrir utan bókun ríkislögreglustjóra.

Mig langar að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi orðið vör við einhverjar mótbárur (Forseti hringir.) eða sterkar athugasemdir gegn þessum tillögum.