145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

breyting á almannatryggingalöggjöfinni.

[11:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ræðuna hér. Ég vil hins vegar fá að beina fyrirspurn til baka til hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur: Ef einhver alvara hefði verið í vinnu í nefndinni hjá stjórnarandstöðunni hefðu menn ekki komið í veg fyrir, í almannatrygginganefndinni, að hægt væri ná saman um breytingar á bótakerfi öryrkja. Menn notuðu þarna pólitískt tækifæri til að leggjast gegn breytingum. Það er ansi erfitt að ætla að fara fram með veigamiklar breytingar sem koma til móts við þá sem minnst hafa í samfélaginu, eins og er verið að gera með frumvarpinu sem snýr að eldri borgurum, frumvarpinu sem er í velferðarnefnd, og eins og ætlunin var að gera varðandi breytingar á bótakerfi öryrkja, en meðal annars vegna andstöðu stjórnarandstöðuflokkanna og þess að Öryrkjabandalagið neitaði að taka þátt í vinnunni erum við að reyna að ná saman eftir að fólk er loksins farið að mæta á fundi.

Ég vona svo sannarlega að vinnan verði öðruvísi núna þegar frumvarpið er komið til nefndarinnar og við reynum að vinna þetta saman til hagsbóta fyrir þá sem minnst hafa.