145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar. Við höfum svarið eið að stjórnarskránni. Við höfum rætt það mál sem við ætlum að fara að greiða atkvæði um hér á eftir og það er kýrskýrt að ríkur ágreiningur er um hvort það standist stjórnarskrána, 2. gr. stjórnarskrárinnar nánar tiltekið.

Framsalsákvæði í stjórnarskránni hefur verið til umræðu í gegnum tíðina, ekki bara í stjórnarskrárnefnd sem nýlega lauk störfum. Það var líka í frumvarpi stjórnlagaráðs. Það var líka í frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Við höfum haft hellingstíma til að ræða þessi mál. En núna ætlum við að troða í gegn EES-máli í bullandi ágreiningi um hvort það standist 2. gr. stjórnarskrárinnar, án þess að hafa tekið almennilega á þeirri spurningu.

Það þykir mér sýna aðeins of vel hversu illa er haldið á málum hér hvað varðar forgangsröðun mála. Ef það á að fara að samþykkja hér mál sem menn eru ekki vissir um að standist stjórnarskrá ættu þeir að endurhugsa forgangsröðun sína.

Ég mæli eindregið með því að við frestum þessari atkvæðagreiðslu þar til málið er útkljáð. EES má bara bíða eftir því að Alþingi Íslendinga tryggi að reglugerðin standist stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Ekkert í okkar störfum er sjálfsagðara en það.