145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[11:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Er ekki allt í lagi að við alþingismenn vöndum okkur aðeins? Hér koma þingmenn fram sem hafa sagst styðja meirihlutaálitið og lýsa því yfir að í ljósi nýrra upplýsinga vilji þeir fá málið aftur til nefndar til að fara betur yfir það sem þar er sagt af sérfræðingum eins og Björgu Thorarensen og hér hefur verið rakið ágætlega. Er ekki allt í lagi að verða við því og að menn vandi sig aðeins í málinu? Við erum búin að teygja og toga stjórnarskrána síðan samkeppniskaflinn var tekinn inn. Síðan þá höfum við verið á mjög gráu svæði, ég hef lagt fram þingmál aftur og aftur um að menn fari í rannsóknir á því hvar þessi mörk liggja og hvernig menn teygja og toga stjórnarskrána þegar kemur að EES-samningnum. Hér er einn okkar helsti sérfræðingur að segja að forsendur samningsins séu brostnar. Eigum við ekki að hlusta á það og stíga varlega til jarðar áður en við göngum til atkvæðagreiðslu?