145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er afar brýnt að við ræðum samgöngumálin hér í borginni. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka þau hér upp. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi þess að borgaryfirvöld og ríki vinni saman að þessum málum. Það held ég að skipti alveg gríðarlega miklu máli. Annað sem mér fannst mikilvægt sem hv. þingmaður kom inn á var að opnunartími yrði samræmdur til að losna við álagspunkta. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að huga miklu meira að í skipulagi okkar. Með því að koma í veg fyrir að álagspunktar og langar biðraðir myndist getum við sparað gríðarlega mikið í ýmiss konar umferðarmannvirkjum. Það er mjög mikilvægt atriði.

Það er líklega satt sem kom jafnframt fram, að einkabílar muni ekki hverfa. En með skipulagi og með þeim ákvörðunum sem hér eru teknar getum við svo sannarlega dregið úr því að fólk telji nauðsynlegt að hver fullorðinn einstaklingur eigi sinn eigin bíl. Þar skiptir auðvitað öflugt almenningssamgöngukerfi lykilmáli. Það skiptir líka máli þegar kemur að því að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Við vorum nú fyrir nokkrum dögum að fullgilda Parísarsamkomulagið. Þar er einmitt minnst á að helstu möguleikarnir til að minnka losun liggi í samgöngumálum.

En af því að hv. þingmaður talaði um slysin og fólk sem býr við skert lífsgæði og fötlun eftir slys, langar mig að lokum að minna á að við vorum líka að samþykkja að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samgöngumál eru risastórt aðgengismál. Sérstaklega er fjallað um þau (Forseti hringir.) í 9. gr. samningsins. Þegar kemur að því að skipuleggja samgöngumál, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar, verðum við að hugsa um að fólk er alls konar og alls konar fólk þarf að geta komist um.