145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

[12:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna. Mér hefur fundist hún málefnaleg og góð. Ég ætla ekki að rekja allt sem aðrir þingmenn hafa sagt en það sem ég legg áherslu á er þetta: Öryggismálin eru grundvallaratriði og við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að það verða allt of mörg slys í umferðinni í Reykjavík. Við verðum að takast á við það. Mengunin er of mikil. Það er eitt sem veldur því og það er ljósastýrð gatnamót. Við verðum að nálgast þetta út frá staðreyndum en ekki óskhyggju. Ég er fylgjandi rafbílavæðingu en það verða líka alvarleg slys ef menn eru á rafbílum, þannig að það leysir ekki þann vanda. Við verðum því að nálgast þetta eins og hæstv. ráðherra gerði.

Varðandi Sundabraut má alls ekki loka á aðkomu Sundabrautar í Reykjavík. Þetta er risaverkefni sem verður ekki farið í nema með blandaðri fjármögnun, það er ljóst, og að mínu áliti verður þetta ekki gert nema með því að tengja Sundabrautina bæði Geldinganesi og Viðey, annað væri mjög óskynsamlegt. Það opnar mikla möguleika á framtíðarbyggð hér.

Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir benti á að of lítið fé færi til samgöngumála. Ég get alveg verið sammála því, en vandinn er hins vegar þegar kemur að Reykjavík að núverandi borgaryfirvöld vilja ekki sækja fjármuni í samgöngumannvirki þegar það snýr að almennri umferð. Ég er ánægður að heyra að öðruvísi tónn er í hv. þingmönnum Samfylkingarinnar en er í meiri hluta borgarstjórnar, því að þetta er stærsti vandinn. Öll sveitarfélög landsins eru að toga fjármuni í samgöngumannvirki, að undanskildu einu.

Á meðan við tökum ekki á þessu verða hér alvarleg (Forseti hringir.) slys að óþörfu og það er óþolandi.