145. löggjafarþing — 155. fundur,  22. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[15:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið.

Þetta er auðvitað lausn á ákveðnu vandamáli. Hvað var lagt upp með í þessari vinnu? Annars vegar að jafna lífeyrisréttindi á milli almenna markaðarins og opinbera markaðarins. Það þýðir að lífeyriskjörin á opinberum markaði, sem voru betri, gætu orðið lakari, en það veit ég ekki af því ég hef ekki nægilega yfirsýn yfir það, og verið er að jafna síðan almenna markaðinn upp á við. Nákvæmlega hver sú niðurstaða verður veit ég ekki, en markmiðið er að jafna réttindin. Hins vegar að leysa vandann í A-deildinni, sem er með ófjármagnaðar skuldbindingar og hefði lögum samkvæmt átt að vera búið að hækka iðgjöldin inn í en það dróst af því þessi vinna var í gangi.

Svo erum við með þriðju stærðina, B-deildina, þar sem eru hundruð milljarða undir og hún er ósnert í þessu máli.

Ég held að þetta sé mikilvæg lausn til framtíðar, en hvort fjármögnunin er hins vegar nægjanleg, það á þingið eftir að skoða. Hvernig kjörin verða milli þessara tveggja hópa og svona ólíkra hópa, það á eftir að skoða. Samspilið við nýja almannatryggingakerfið, ef það færi óbreytt í gegn, þar er augljóslega ekki bara aldurinn vandamál. Ég get því með engu móti sagt hvort þetta sé lausn. En ég leyfi mér þó að fullyrða að þetta sé mjög mikilvægt skref til að jafna réttindin og að þetta sé sannarlega skref í rétta átt.