145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

störf þingsins.

[11:18]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hér er talað um vönduð vinnubrögð. Við Íslendingar getum verið stoltir yfir því á hvern hátt við tökum á móti flóttafólki sem valið hefur verið til landsins á hverju ári og er áætlaður kostnaður vegna þess á þessu ári 431 millj. kr. Flestir aðlagast vel og mikilvægt er að fólk aðlagist samfélaginu og verði þátttakendur í atvinnu- og menningarlífi.

Hælisleitendur eru annar flokkur flóttamanna sem stöðugt sækir til landsins og er samsettur mest af ungum karlmönnum sem koma hingað vegabréfalausir. Með nýsamþykktum lögum um útlendinga eru skilaboð Alþingis skýr til þessa hóps og þau eru að skila sér. Árið 2014 var fjöldi hælisleitenda 175 en áætlaður fjöldi hælisleitenda er 700 á yfirstandandi ári. Það er 98% aukning frá fyrra ári.

Dvalargjöld hælisleitenda sem ekki fá úrlausn mála sinna eru 7.800 kr. á dag, þ.e. 234.000 kr. á mánuði, 2,8 milljónir á ári, en lágmarksellilífeyrir er þessa dagana 212.766 kr. (HHG: Skammastu þín.) Samkvæmt fjáraukalögum eru settar 640 milljónir til Útlendingastofnunar vegna hælisleitenda en fyrir voru 556 milljónir. Samtals á þessu ári 1.200 milljónir.

Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Allt of mikið …) 1.200 milljónir, (SJS: Hvert er þingmaðurinn að …?) eins og það mundi kosta að reka skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum í fimm ár en þar er engin skurðstofa og enga fæðingarhjálp að hafa. (Gripið fram í.) Kostnaður vegna hælisleitenda eykst frá árinu (Gripið fram í.) 2011 úr 60 milljónum í 1.200 milljónir árið 2016. Á síðustu þremur árum hefur lögfræðikostnaður innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitenda verið 174 millj. kr. og á fjáraukalögum verður bætt við 55 milljónum í þennan lið.

Virðulegi forseti. Með nýjum lögum um útlendinga hlustuðu Íslendingar ekki á reynslu nágrannaþjóða okkar. Í þessum sal er talað um (Forseti hringir.) vönduð vinnubrögð. Þarf það ekki líka í þessum málaflokki? (Gripið fram í: Úff.)


Efnisorð er vísa í ræðuna