145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[13:04]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta snýst um það hvernig við getum verið aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og hvernig við getum tekið upp skynsamlegar eftirlitsreglur með fjármálakerfinu án þess að okkar eigið fullveldi verði skert. Okkar núgildandi stjórnarskrá kom í veg fyrir að við tækjum upp það kerfi sem lagt var fyrir okkur, það var búið að smíða sérstakt kerfi. Ég óttast að ef vilji þeirra sem hér hafa talað um að setja inn valdaframsal inn í stjórnarskrá nær fram að ganga færu hlutir að renna hér í gegn þar sem fullveldinu væri raskað mun hraðar [Hlátur í þingsal.] og meira en ella vegna þess að núgildandi stjórnarskrá kallar á það að við brjótum ekki fullveldið og stjórnarskrána. Þess vegna þarf að smíða sérreglur. Þess vegna held ég að þetta sé gott og búið er að leggja mikla vinnu í þetta.

Það sem kemur á óvart í umræðunni er ekki að þeir flokkar sem vilja ganga í Evrópusambandið og vilja gjarnan að við vöðum og tökum yfir allt sem kemur frá Evrópusambandinu, (Forseti hringir.) það sem kemur á óvart í þessari umræðu er að Vinstri hreyfingin – grænt framboð (Forseti hringir.) skuli vera komin á þann vagn. Ég segi já vegna þess að þetta er góð leið til að uppfylla skyldur okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins. (Gripið fram í.)