145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera þessi orð forseta að mínum. Stundum þarf að taka af skarið og þá getur verið að ekki verði gert eins og öllum líkar. En staðan er orðin þannig núna að það er stjórnarandstaðan sem verður að taka af skarið. Við erum búin að vera hér afskaplega málefnaleg, sáttfús og vinnusöm. Við höfum sýnt því skilning að klára þurfi ákveðin mál. En tíminn hefur verið nýttur illa. Heilu og hálfu dagarnir hafa ekki farið í neitt nema hangs. Núna eru aðeins þrír dagar eftir að þessum meðtöldum. Stjórnarandstaðan lætur ekki draga sig lengur á asnaeyrunum. Hún tekur af skarið. Það má vera að ekki líki öllum sú niðurstaða.