145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[17:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé farið að síga aðeins á seinni hlutann á 1. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Svo ég tali bara fyrir sjálfa mig hefur mér fundist þessi umræða gagnleg. Það hefur verið talsvert mikill samhljómur í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar. Flestir sem tekið hafa til máls virðast frekar vera á að því að ráðast þurfi í þessar breytingar, en bent hefur verið á að tíminn sem Alþingi, og þar með þingnefndum, gefst til þess að fjalla um málið er allt of knappur. Má þá í rauninni einu gilda hvort við treystum því að starfsáætlun Alþingis haldist og að við ljúkum hér störfum á fimmtudaginn eða hvort við munum halda áfram að funda eitthvað inn í október.

Einmitt vegna þess að umræðan hefur verið dálítið drjúg hefur verið bent á ýmsa anga sem mikilvægt er að halda utan um. Mér hefur fundist sú spurning verða æ áleitnari í umræðunni hvernig standa eigi að jöfnun launakjara almenns og opinbers vinnumarkaðar, en því máli er í raun skotið inn í framtíðina. Ég hef af því miklar áhyggjur því að líkt og stendur í athugasemdum með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að launajöfnun verði innan þess svigrúms sem kjarasamningar og ríkisfjármálaáætlanir setja og að þar séu ýmsir þættir sem muni geta vegið þar til mótvægis. Er þar nefnt t.d. aukin framleiðni í opinberri starfsemi, endurskipulagning og hagræðing þjónustuveitingar.

Mér finnst ekkert sjálfgefið að lesa út úr því einhver áform um aukna einkavæðingu. Það sem mér finnst hins vegar blasa við er að hér er verið að draga úr og má segja milda væntingar þeirra stétta sem þetta frumvarp nær til, til launahækkana í framtíðinni. Það eitt og sér finnst mér afar slæmt mál vegna þess að líkt og margoft hefur verið bent á í umræðunni eru það að miklu leyti fjölmennar kvennastéttir sem málið nær til.

Værum við nú hér í upphafi þings og þetta væri eitt af fyrstu málunum sem væri verið að ræða mundi ég ekki hika við að segja að ég teldi að sú hv. þingnefnd, hv. fjárlaganefnd í þessu tilviki, sem fær málið til sín verði að skerpa þarna á orðalagi og fara í mikla greiningarvinnu á áhrifum frumvarpsins með tilliti til ólíkra áhrifa sem það kann að hafa á kynin. Það hefur ekki verið gert með þetta mál.

Þetta er atriði sem ég náði ekki að koma inn á í fyrri ræðu minni um málið og fannst því mikilvægt að koma inn á það í síðari ræðu. Ef við viljum halda áfram að vera í fyrsta flokki þegar kemur að kynjajafnrétti verðum að fara að ráðast gegn hinum kynbundna launamun. Það eru tækifæri í því efni í þessu máli, (Forseti hringir.) en bara ef það verða stigin einhver ákveðin skref. Þess vegna þarf að kveða fastar að orði um það hvernig jafna eigi launakjör á almennum og opinberum markaði.