145. löggjafarþing — 159. fundur,  28. sept. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[12:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að það komi hv. þingmanni á óvart að mér finnist óþarfa taugaveiklun í kringum þetta, en mér finnst það. Ég tel að það þurfi að veita Seðlabankanum heimild til að fylgjast með þeim atriðum sem honum er veitt heimild til. Eins og hv. þm. Brynjar Níelsson sagði áðan er nauðsynlegt að viðhalda hér fjármálastöðugleika. Ef þeir sem eru ábyrgir fyrir því að gera það telja sig þurfa þessar heimildir er ég tilbúin til að veita þær. Ég er tilbúin til að segja það að ég treysti þeim stofnunum sem fara með þetta til að gera það á réttan og sómasamlegan hátt. Það er mín afstaða. Það getur vel verið að hv. þingmanni þyki hún eitthvað skrýtin og ekki rétt, en það er mín afstaða.