145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sat nú í nefndum sem áttu að skila tillögum til stjórnvalda um aðgerðir til að reyna að lækka farmiðaverð í innanlandsflugi. Við lögðum dálitla vinnu í að kortleggja möguleikana í þeim efnum og skiluðum tillögum sem við vorum búin að reikna út að mundu eiga að þýða svona 15-18% lækkun meðalfarmiðaverðs í innanlandsflugi. Það voru beinar tillögur sem stjórnvöld hefðu getað valið á milli. Ein og mjög einföld var að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt af eldsneytinu í innanlandsfluginu. Það er þannig í dag að flugfélögin borga virðisaukaskatt af eldsneyti í innanlandsflugi en ekki millilandaflugi. Af því að þetta er ekki virðisaukaskattsskyld starfsemi hafa þau engan frádrátt á móti. Þau éta vaskinn, eins og kallað er. Sitja uppi með hann og engan frádrátt á móti honum. Þar færu 200 milljónir út úr dæminu. Síðan er hér verið að tala um 300 milljónir inn í þetta sem auðvitað má hugsa sér að ráðstafa með ýmsum hætti. Mér líst illa á hugmyndir um að fara að skipta flugvöllunum upp og henda í Vegagerðina litlu flugvöllunum. Ég hefði talið nær að Isavia skoðaði möguleikann á því þar sem aðstæður eru hagstæðar til þess að semja við heimaaðila (Forseti hringir.) um þjónustuna og reksturinn. Það eru fordæmi fyrir því og þau hafa gengið ágætlega þar sem sveitarfélögin með sínu áhaldahúsi annast um og þjónusta flugvöllinn á grundvelli samnings við Isavia. Það gæti verið praktískt fyrirkomulag á mörgum stöðum.