145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á innblásna ræðu hv. þingmanns og kom margt ágætt þar fram. Ég verð þó að viðurkenna að mér fannst hann heldur reiður yfir því að strandsiglingarnar hafi verið lagðar niður fyrir um 23 árum. Ég vona nú að fólk sem situr hér á pöllunum hafi ekki þurft að þola það að vera reitt alla sína ævi. Mér sýnist ekki allir hafa náð 23 ára aldri.

En svona til upprifjunar er ágætt að minnast á að það eru strandsiglingar í dag sem eru ágætar. Menn verða líka að hafa í huga að framleiðslufyrirtæki og fleiri, og bara íbúar landsbyggðarinnar, sætta sig ekki við annað en að vörur skili sér mjög hratt og örugglega á milli landshluta. Allar þær vörur sem fluttar eru af framleiðslufyrirtækjum verða stundum að komast samdægurs í hús. En er þá ekki hv. þingmaður sammála því að við skoðum og leitum allra leiða til að styrkja innanlandsflugið enn frekar? Nefndar eru nokkrar tillögur. Það er hægt að gera þetta með ýmsum hætti. Það mundi létta á þjóðvegakerfinu, eins og hv. þingmaður benti réttilega á og er mjög mikilvægt með auknum straumi ferðamanna og til að auka umferðaröryggi og létta á vegunum. Mér finnst að það eigi að vera forgangsatriði. Ég er algerlega á þeirri skoðun.

Svo eyddi hv. þingmaður töluverðum tíma í langtímaáætlun. Hann er óánægður með ýmislegt sem þar kemur fram. Ég vil nú halda mig við þá áætlun sem við ræðum í dag. Ég var mjög ánægður að heyra að hv. þingmaður tæki viljann fyrir verkið. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir lýsti þessu sem kosningaplaggi, að verið væri að bæta drjúgt og mikið í og augljóst að það væru að koma kosningar, en mér fannst eins og samflokksmaður hennar væri á þveröfugri skoðun, að þetta væri hálfaumingjalegt plagg og þyrfti að gera enn þá betur. En hvað um það.