145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram hefur mæting á nefndarfundi verið með mismunandi hætti og stundum gengið illa að fullmanna af hálfu stjórnarmeirihlutans í sumum nefndum. Það hefði auðvitað átt að gera hlé strax í upphafi, eða öllu heldur hefði þingfundur aldrei átt að hefjast fyrr en að loknum þessum fundum. Minni hlutinn telur að þinghald hefði ekki átt að hefjast í dag fyrr en búið hefði verið eiga þau samtöl sem forseti tilkynnir hér að verði í fyrsta lagi eftir klukkutíma.

Við horfum fram á lengsta þing í sögunni, síðan í september í fyrra, og það er samt einhvern veginn ekkert að gerast. Það eru fleiri sem geta stjórnað landinu. Lífinu lýkur ekki þó að þessir ríkisstjórnarflokkar láti af störfum og fari í kosningar ásamt okkur hinum. Við getum afgreitt mál, hver og einn þingmaður hér, hvernig svo sem ríkisstjórn verður samsett eftir kosningar. Það er ekki eins og þau mál (Forseti hringir.) sem hér eru standi bókstaflega (Forseti hringir.) og falli með því að þeir tveir flokkar sem nú eru við völd verði að fá að klára þau. (Forseti hringir.) Þetta er óboðlegt, virðulegur forseti.