145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[11:03]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek nú bara undir orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, (ÖS: Loksins.) um að þetta sé bara sýndarmennskan ein. Ég skil þá vel sem finnst að þeir hafi fengið litla athygli hjá fjölmiðlum um helgina, ég skil það svo sem ágætlega. (Gripið fram í.) En að reyna að ná athyglinni og fá sviðsljósið í þessum ræðustól og tefja með því þinghaldið — ég sé ekki annað en að dagskrá dagsins sé bara umtalsverð. (BjG: Veistu hvernig starfsáætlunin er?) Það er hér fjögurra ára samgönguáætlun, eða vilja menn ekki ræða það? Eigum við ekki að reyna að drífa hlutina af og halda áfram að ræða þá áætlun? (Gripið fram í.) Það er fullt af málum hérna sem við þurfum að vinna í. Eigum við að standa hér og tala um að ekkert gangi þegar við viljum fara að losna? Eigum við þá ekki að taka höndum saman og klára þessi verk (Gripið fram í: Hvaða verk?) [Kliður í þingsal.] svo hv. þingmenn geti komist í sína kosningabaráttu? (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Komdu með listann.) Klárum að vinna og þá getið þið farið í ykkar kosningabaráttu, hv. þingmenn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)