145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:08]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við erum hér saman komin á þingi eftir að starfsáætlun er lokið og vitum ekkert um framhaldið. Forseta er vissulega vandi á höndum og það er vandi sem snertir hina margumtöluðu virðingu Alþingis.

Forseti sagði hér áðan að til stæði að boðað yrði til fundar með formönnum. Ég verð að segja það sem formaður eins af stjórnarandstöðuflokkunum að það kemur mér á óvart, það eru fréttir fyrir mig, en ég fagna því. Formennirnir hafa verið að hittast síðustu vikur og mánuði en því miður hefur ekkert komið út úr því. En það er vonandi að þar verði breyting á.

Það er stórfurðulegt að vera hér í mínu elskaða Alþingi við þingstörf sem eru mér mjög kær, en hér vantar því sem næst algjörlega fulltrúa stjórnarflokkanna í samtalið. Það hlýtur líka að vera áhyggjuefni fyrir forseta.