145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Við vorum ósátt við það í morgun að verið væri að funda þegar starfsáætlun er útrunnin og engin samtöl í gangi milli forustumanna stjórnmálaflokkanna.

Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, og hæstv. innanríkisráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, eru á Austurlandi. Þau eru ekki á Alþingi að reyna að leysa úr málum og finna út hvernig þau geta lokið þessu kjörtímabili standandi á fótunum. Nei, þau eru á kosningafundum. Þar liggur þeirra forgangsröðun. Það er ábyrgð þeirra gagnvart stjórn þessa lands. Og ég skil ekki enn af hverju við erum hér á meðan þetta fólk er ekki tilbúið til að sinna skyldum sínum við Alþingi.