145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

áætlanir um þinglok.

[10:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að hrósa forseta fyrir fundarstjórn og sérstaklega í gær. Forseti gerði hárrétt í því að halda engan fund og hefði gert rétt í því að gera það sama í dag meðan ástandið er eins og það er. Ég held að það þurfi að rifja upp hvers vegna við erum stödd í þessum sporum. Það er vegna þess að ríkisstjórnin ákvað í vor að reyna að framlengja líf sitt um nokkra mánuði og sagði að það væri nauðsynlegt vegna þess að hún ætti mikilvæg mál eftir óafgreidd. Aðspurð gat ríkisstjórnin að vísu ekki svarað því hvaða mikilvægu mál það væru, en þó var fljótlega farið að nefna þrennt. Það var húsnæðismálapakki, það voru búvörusamningar og tollasamningur og það var rýmkun fjármagnshafta. (Gripið fram í: Allt búið.) Húsnæðismálin voru afgreidd með mikilli vinnu stjórnarandstöðunnar hér sl. vor, búvörusamningar og tollasamningur eru afgreiddir og gjaldeyrismálin bíður 3. umr. tilbúið til afgreiðslu. Í aðalatriðum er þetta búið. En þá kemur sundurtættur stjórnarmeirihlutinn og vill allt í einu fara að prenta út þingmálaskrána og fá hana afgreidda. Menn komast ekkert áfram af því að báðir stjórnarflokkarnir eru í upplausn. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn er á taugum út af klofningi yfir í Viðreisn og Framsókn logar stafnanna á milli. Það er ekki við neina að tala, við neina að semja, og það er ekkert annað að gera, herra forseti, en að hætta þessu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)