145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Þegar hillir undir að þingi fari að ljúka og við getum farið að ganga til kosninga hefur maður velt fyrir sér hinum og þessum hlutum sem eru að gerast í samfélaginu og hvernig þetta hefur gengið fyrir sig á síðustu þremur og hálfa ári. Það er ljóst að það er mikill hagvöxtur í gangi og ýmislegt sem horfi til betri vegar í íslensku samfélagi. Við getum verið ánægð með það en það eru samt ýmsir hlutir sem mega fara betur. Í vikunni sat ég ráðstefnu eða málþing uppi í Háskóla Íslands þar sem yfirskriftin var: Viljum við samfélag án kennara? Þar komu fram ýmsar upplýsingar um að á næstu árum horfi til mikilla vandræða í íslensku menntakerfi af því að við útskrifum ekki nógu marga kennara, hvorki leikskólakennara né grunnskólakennara. Þegar maður horfir á aðra stóra stoð í samfélaginu sem er heilbrigðiskerfið hefur það líka komið fram á kjörtímabilinu að það horfir til mikilla vandræða með mönnun á heilbrigðisstofnunum Þetta er eitthvað sem við verðum að leggja fyrir okkur í þessari kosningabaráttu, held ég, og allir flokkar.

Það var kallað eftir því á þessari ráðstefnu upp í háskóla í vikunni að mynduð yrði þjóðarsátt um það hvernig við ætlum að taka á þessum málum, ef ekki á illa að fara. Það er alveg ljóst fyrir okkur sem þjóð að við verðum að hlusta á þetta kall og taka tillit til þess. Ef við náum ekki að manna þessar tvær meginstoðir í íslensku nútímasamfélagi, sem eru heilbrigðiskerfið og menntakerfið, þá erum við fyrst í alvörukrísu. Þá er fjármálakrísa ekkert í samanburði við það.

Ég vona að í kosningabaráttunni fái þessi málefni mikla umræðu og verði rædd af miklu meiri ákafa og hreinskilni en var t.d. gert í síðustu kosningabaráttu. Þetta eru lykilatriði í hverju einasta samfélagi í dag, þ.e. heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Án þeirra erum við ekki neitt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna