145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

formgalli á dagskrártillögu.

[11:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að gera alvarlegar athugasemdir við framgöngu forseta í gær. Lögð er fram dagskrárbreytingartillaga á þinginu með málum en vissulega lá ekki fyrir nefndarálit í þeim öllum. En samkvæmt þingsköpum getur meiri hluti í þingsal kallað mál úr nefnd. Forseti ákveður að taka málið af dagskrá en tekur fram að formgalli sé á tillögunni, að hún sé í rauninni ekki tæk. Annaðhvort er mál tækt og þá setur forseti málið á dagskrá án málalenginga, eða tillagan er ekki tæk og þá fer málið ekki á dagskrá. Þá hefðum við getað tekið þá umræðu í hliðarsal hvernig skilja beri þingsköpin. Þau vinnubrögð sem ég upplifði hér í gær fundust mér vera til skammar. Ég vil ítreka að ef forseti telur að tillaga sé ekki þingtæk fer hún ekki á dagskrá. Ef hann setur hana á dagskrá er hann ekki með einhverjar hugleiðingar um að hann telji að hún sé gölluð eða ekki tæk. Mér finnst þetta út í hött, virðulegi forseti.