145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[13:30]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða samgönguáætlun. Hún hefur nú aldeilis verið til umræðu hér undanfarna daga og miklu lengur en menn gerðu ráð fyrir og hefur verið nýtt í það að þæfa málið þangað til ríkisstjórnarflokkarnir komast að niðurstöðu um hvernig þeir ætla að ljúka þessu þingi. Það hefur m.a. gert það að verkum að fjöldi manns úti í samfélaginu bíður með öndina í hálsinum eftir því að áætlunin verði samþykkt og ekki að ástæðulausu því að víða er pottur brotinn í samgöngumálum á Íslandi. Ljóst er að við þurfum aldeilis að taka til hendinni ef við eigum að geta verið sátt við ástandið í samgöngumálum. Komið hefur fram áður í ræðum margra, m.a. mér, í umræðum um samgöngumál að áætlunin er því miður einhvern veginn uppbyggð þannig að verkefnin eru flokkuð eftir kjördæmum og virðist vera kjördæmakeppni um hver er duglegastur að ná í peninga og knýja fram breytingar í sínu kjördæmi. Mér finnst ekki góður bragur á því.

Komið hefur fram í máli margra hv. þingmanna að við þurfum að breyta þessu og þurfum að forgangsraða og vinna samgönguáætlun öðruvísi. Ég vona svo sannarlega að það verði gert á næstu árum og við förum að forgangsraða eftir því hvar sem þörfin er mest. Nú finnst náttúrlega öllum þörfin vera mest í sínu kjördæmi og á sínu svæði. Það er ekkert óeðlilegt. Ég er úr Suðurkjördæmi og þar hefur umferð aukist gríðarlega á síðustu árum, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna til landsins. Maður bara upplifir það á eigin skinni þegar maður keyrir um kjördæmið að umferðin þar er gríðarleg. Það er ofboðslegt álag á samfélögin á Suðurlandi og á vegakerfinu. Sveitarstjórnarmenn og þeir sem búa á svæðinu segja mér að þeir hafi miklar áhyggjur af því hvernig hlutirnir hafa verið að þróast og gerast með það litla fjármagn sem sett er í samgöngumál og vegamál í þeirra kjördæmi og á þeirra svæðum.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með að átta af tíu vinsælustu ferðamannastöðum á landinu eru í Suðurkjördæmi. Þangað sækir nánast hver einasti ferðamaður sem kemur til landsins. Hann ferðast með rútum og bílum og það er gríðarlegt álag á þessum kerfum. Þó að verið sé að leggja peninga til ýmissa verkefna í þessari áætlun, eins og á Biskupstungnabraut og í veginn upp að Geysi, er það ekki nándar nógu mikið, segja mér menn, og að leggja þurfi miklu meiri peninga í það á næstu árum. Vonandi verður það gert og hefði þurft að vera gert núna. En þetta er staðan. Það eru ekki meiri peningar. Þó er nú verið að leggja fram töluvert meira fé í þessari samgönguáætlun, sem er mjög gott. Samgöngunefnd á hrós skilið fyrir vinnu sína í þessum málum, fyrir að fá meiri peninga í þessi mál.

Á síðasta ári létust 16 manns í umferðinni á Íslandi. Þá hafði fjölgað um 12 frá því árið áður, sem er gríðarleg aukning og segir okkur að umferðin á landinu er að aukast alveg gríðarlega. Mikið af þessum slysum sem orðið hafa í umferðinni eru vegna erlendra ferðamanna sem eru óvanir að keyra á svona mjóum vegum og eru hrifnir af okkar fallega landi og stoppa í vegarköntum. Síðasta banaslysið á Suðurlandi varð vegna þess að fólk var að labba þar yfir veg til að skoða eitthvað athyglisvert, sem kostaði það að fólkið varð að fara yfir veginn. Það er mikilvægt mál að við skoðum þetta allt saman í stóru samhengi og gerum mjög mikla áætlun til lengri tíma. En það er ljóst að á næstu árum, og helst strax, verður að leggja miklu meira fé til samgöngumála. Þetta eru mikilvægustu málin fyrir landsbyggðina og byggðastefnu í landinu, þ.e. góðar samgöngur og fjarskipti.

Í mínu kjördæmi eru yfir 20 brýr einbreiðar að Hornafirði. Einbreiðar brýr eru 39 á þjóðvegi 1 á landinu öllu. Það er nú eitt af því sem þarf aldeilis að laga. Bara á síðasta ári urðu banaslys í Suðurkjördæmi vegna einbreiðra brúa. Það er gríðarlegt mikilvægt að útrýma þeim mjög markvisst á næstu árum, því að ef fram heldur sem horfir í fjölgun ferðamanna mun eitthvað gefa sig.

Ég bý sjálfur í Grindavík. Nú er mjög mikilvægri og góðri framkvæmd á gatnamótunum við Bláa lónið nýlokið. Hún var gerð til þess að auka umferðaröryggi þar. Í þeirri áætlun sem nú kemur fram á að leggja peninga í breytingar á gatnamótunum við Krýsuvíkurveg, sem er gríðarlega mikilvægt, því að við sem keyrum þennan veg á hverjum einasta morgni áttum okkur á því hversu svakaleg slysagildra og hættuleg gatnamót þarna eru. Það er vel að bæta eigi þau.

Svo ég haldi áfram að tala bara um mitt kjördæmi, því að þetta er kjördæmaskipt, þá var stofnaður hópur suður á Reykjanesi í kjölfar banaslyss á Reykjanesbrautinni, sem talað er um í nefndarálitinu, sem knúði fram breytingar á Hafnarvegi. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að slys þurfi að verða, þar sem ung kona missti eiginmann sinn og þrjú börn misstu föður sinn, til þess að eitthvað sé gert í þessum málum. Þó að það hafi verið í umræðunni í langan tíma að gera breytingar á Hafnarvegsafleggjaranum gerðist það ekki fyrr en maður lést. Þetta virðist oft vera saga okkar Íslendinga að lítið er gert og litlu breytt í svona málum þangað til eitthvað skelfilegt gerist. Þetta hörmulega slys í júlí sl. varð til þess að hópurinn Stopp, hingað og ekki lengra! var stofnaður. Eins og komið hefur fram í ræðum þingmanna áður í þessari umræðu er það ótrúlega sorglegt að það þurfi svona samtakamátt í sveitarfélagi eins og Reykjanesbæ og á Suðurnesjum til þess að gera breytingar á þessum málum. Samtök þessi voru stofnuð af miklum eldmóð þarna suður frá og barátta þessa fólks og eldhugur gerði það að verkum að settir voru peningar og fjármagn til þess að bæta við tveimur hringtorgum við Aðalgötu og Flugvallarveg, sem munu gjörbreyta aðstæðum. Eins mun Hafnarvegi verða breytt á næstu árum. Það þarf að fara í gegnum skipulagsbreytingar þar til þess að það verði gert en það mun stórauka öryggi þarna.

Eins hefur verið talað um að gangandi umferð er mikil yfir Reykjanesbrautina frá Ásbrú og gamla varnarsvæðinu þar sem nú er komin blómleg byggð á ný. Fólk gengur mikið yfir Reykjanesbrautina við Fitjar til þess að fara í stórmarkaði sem þar eru, en með því skapast náttúrlega alveg gríðarleg hætta. Það er nokkuð sem laga þarf á næstu árum. Það er alveg gríðarleg umferð á Reykjanesbrautinni og upp í flugstöð. Ég starfaði í flugstöðinni í eitt og hálft ár og keyrði þar um á hverjum einasta degi. Það er tvennt ólíkt að keyra þar núna eða þá, umferðin er alveg gífurleg frá Fitjum og upp í flugstöð þar sem er einbreiður vegur. Það er alveg ljóst að það er á áætlun, 2019–2022, ef ég man rétt, að klára veginn þarna upp eftir, sem er gríðarlega mikilvægt eins og svo margt annað. Auðvitað er allt mikilvægt í samgöngumálum. Því miður virðumst við hafa verið tekin algjörlega í bólinu varðandi fjölgun ferðamanna, við vorum einhvern veginn ekki tilbúin undir það allt saman og því miður þarf að leggja gríðarlega vinnu í það að mæta henni.

Ég vona að það þing sem tekur til starfa hér eftir kosningar og sú ríkisstjórn sem kemst til valda leggi mikinn metnað í þetta. Auðvitað þurfum við að ná í tekjur til þess að mæta þessum kostnaði, þessu fylgir mikill kostnaður og við þurfum einhvern veginn að ná í tekjurnar. Ég hef oft talað um það í ræðustól að á síðasta kjörtímabili lagði ríkisstjórnin fram mjög metnaðarfulla fjárfestingaráætlun sem sneri m.a. að samgöngumálum. Ég get líka nefnt það, þó að ég sé þingmaður fyrir Suðurkjördæmi, að miklar vegabætur hafa orðið í minni æskubyggð, sem er Vopnafjörður. Vegurinn þangað hefur gjörbreytt samgöngum um það svæði. Hann hefur breytt miklu fyrir Vopnafjörð. Maður sér bara hvað ein framkvæmd getur haft gríðarlega góð áhrif á íbúa á þessum svæðum.

Ég nefni líka Suðurstrandarveginn sem kom á síðasta kjörtímabili og var kláraður. Hann hefur líka haft gríðarlega góð áhrif og hefur umferð verið að aukast um hann á ári hverju. Hann hefur sannað sig fullkomlega sem frábær viðbót við vegakerfi landsins. Við þurfum samt einhvern veginn breyta því hvernig við leggjum upp samgönguáætlun. Við eigum fullt af fólki sem er mjög framarlega í umferðaröryggismálum. Ég nefni Ólaf Guðmundsson. Ég hefði viljað gera hann að umferðaröryggismálastjóra ríkisins því að fáir hafa meira vit og þekkingu á þessum málum. Ég hef setið fundi í kjördæminu þar sem hann hefur haldið fyrirlestra um samgöngumál. Það er mjög gaman að hlusta á fólk sem hefur mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði og ég veit að hann hefur haft hönd í bagga með gerð þessarar samgönguáætlunar og gefið góð ráð. En samgöngumál eru mjög stór þáttur í samfélaginu í dag. Hlutur þeirra hefur síaukist. Við þurfum að gera gangskör að því að laga þau.

Ég hitti sveitarstjórnarmenn í Suðurkjördæmi í síðustu viku. Þeir eru nú ekki mjög hýrir á brá vegna nýju samgönguáætlunarinnar og telja að gera þurfi miklu meira. Það lá í orðum þeirra að við gerðum okkur ekki grein fyrir því, þ.e. við hér á löggjafarþinginu og ráðamenn þessarar þjóðar, hversu gríðarlega mikilvæg þessi mál væru í kjördæmi þeirra eða mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi. Það er ekki bara alveg gríðarlega mikið af ferðamönnum þar í rútum og einkabílum sem keyra um svæðið, heldur eru líka ofboðslega miklir þungaflutningar. Fiskflutningar frá Austurlandi suður og öfugt eru alveg gríðarlega miklir. Það þekki ég nú bara úr Grindavík vegna þess að stóru línubátarnir fara austur fyrir á land á vissum árstíma til þess að veiða og flytja síðan fiskinn til vinnslu suður í Grindavík á stórum flutningabílum. Það hefur náttúrlega þau áhrif að vegakerfið gefur hægt og bítandi eftir þegar svona ofboðslega mikil aukning er á slíkum flutningum. Maður veltir því oft fyrir sér hvort gömlu góðu strandsiglingarnar hefðu ekki verið fínar núna til þess að létta á þjóðvegunum. Það er nú önnur saga, en það er örugglega allt í lagi að ræða það á næstunni hvort ekki sé hægt að gera eitthvað í því að auka samgöngur á sjó í tengslum við flutninga, því að þeir hafa rosaleg áhrif á vegakerfið. Ég keyrði hringinn í kringum landið í sumar og því miður er vegakerfið okkar í afar slæmu ástandi þó að vissulega séu þar kaflar þar sem ástandið er mjög gott, en betur má ef duga skal.

Ég fagna því ný samgönguáætlun sé komin fram þó að hún sé tvö ár aftur í tímann. Það er svolítið skrýtið að vera að samþykkja samgönguáætlun frá 2014 eða 2015, en það er önnur saga. Við erum komin með þetta plagg í hendurnar og þessa tillögu sem við verðum að fagna að sé komin fram. Þar er margt til bóta. Verið er að leggja peninga og fjármagn til mjög nauðsynlegra framkvæmda þótt mikið vanti upp á í nýframkvæmdum og viðhaldi. Mér skilst að samkvæmt vegamálastjóra þurfi um 11 milljarða á ári bara til að halda í horfinu varðandi viðhald. Nú leggjum við um 8 í það. Það vantar 3 milljarða upp á bara til að halda í horfinu. Það segir okkur hversu mikið vantar upp á í rauninni til þess að við getum verið ánægð með samgönguáætlun.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja að ég vona, og legg aftur áherslu á það, að samgönguáætlun á næstu árum verði unnin í víðtæku samráði við alla hagsmunaaðila þar sem allt er tekið inn og sett í forgangsröð, að við forgangsröðum eftir því hvar þörfin er mest. Svo er það líka erfitt vegna þess að svæði eins og sunnanverðir Vestfirðir og aðrir staðir hafa verið hafðir út undan árum og áratugum saman og fólk á þeim svæðum er orðið langeygt eftir því að fá einhverjar vegabætur.

Eins og ég nefndi áðan fagna ég því líka sérstaklega að verið sé að leggja pening í vegaframkvæmdir á mínu svæði þarna suður frá og öryggi aukið á veginum frá Fitjum upp í flugstöð. Þar hafði mikið að segja hópurinn sem ég nefndi áðan, Stopp, hingað og ekki lengra!, undir forustu þeirra Ísaks Ernis Kristinssonar, Guðbergs Bergssonar og Margrétar Sanders og fleiri. Ég held jafnvel að ef þau hefðu ekki stigið svona hressilega inn í umræðuna og sagt að þetta dygði ekki lengur væri ekkert víst að neitt hefði verið gert í þessum málum þrátt fyrir þetta hörmulega banaslys sem þarna varð.

Þarna virkaði beint lýðræði allhressilega og sýndi okkur að fólkið getur haft mikil áhrif ef það vill og berst fyrir sínum baráttumálum. Þau eiga allar þakkir skyldar fyrir frábæra baráttu og fyrir að taka okkur þingmenn á teppið og gera okkur grein fyrir því að svona gengi þetta ekki lengur. Við yrðum að sýna samstöðu um að bæta þessi mál þarna áður en enn fleiri og verri slys — ja verri slys, þau geta varla orðið verri en banaslys — en fleiri slys og jafnvel banaslys verði þarna, því að eitt banaslys í umferðinni er einu banaslysi of mikið. Það kostar okkur gríðarlega mikið, ekki bara fjármuni sem eru aukaatriði þegar einhver deyr, heldur mikla sorg og missi sem litlu samfélögin á Íslandi, eins og Garður í þessu tilfelli, verða fyrir þegar fólk deyr á besta aldri. Fleira var það ekki.

Ég fagna því að þessi tillaga skuli vera komin fram og að við samþykkjum hana hér á þessu þingi.