145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[13:53]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það. Auðvitað vill maður sjá auknar samgöngur á Íslandi. Þó verður að athuga eitt, við búum ekki við sömu veðurskilyrði og aðstæður og aðrar þjóðir, það þýðir að við verðum að vera með miklu öflugri tæki og betri tæki til þess að ferðast.

Á þessari umræddu ungmennaráðstefnu á Hvolsvelli um daginn þá kom einmitt fram hjá þessu unga fólki að þau lögðu mikla áherslu á almenningssamgöngur. Kortið yfir önnina kostar samt hvern og einn 90 þús. kr. Það er dálítið mikill peningur fyrir ungt fólk. Síðan kom líka í ljós þegar við fórum að ræða þetta meira að nemendur nota bara almenningssamgöngurnar þangað til þau fá bílpróf. Þá er miklu ódýrara fyrir þau að vera saman í bíl, einn á bíl og fimm í bílnum. Það er miklu ódýrara. Á Íslandi hefur náttúrlega verið rekin bílastefna árum saman, einkabílastefna. Allir eru á bíl og það er kannski ekki skrýtið. Vegalengdir hjá okkur eru langar og menn nenna stundum ekki að sitja mikið í rútum eða strætó heldur vilja vera á bíl. Við sjáum hvað umferðin í Reykjavík á morgnana og á vissum álagstímum er gríðarleg og oftar en ekki er einn í bíl. En það hlýtur að vera markmið okkar á næstu árum eftir því sem okkur fjölgar meira að efla almenningssamgöngur.

Ég get sagt sem dæmi að á síðasta kjörtímabili þegar þessi samningur var gerður milli ríkis og landshlutasamtaka var Keflavíkurrútan inni í því sem flytur farþega frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. Ef Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefði fengið að reka þá rútu, en innanríkisráðherra sem tók við 2013 tók það til baka, hefði það borgað upp allar aðrar samgöngur á svæðinu. Jafnvel var talað um að það hefði getað borgað niður tapið sem var á almenningssamgöngum í Eyþingi, sem var um 28 milljónir minnir mig á því ári. Þetta er alltaf spurning um hvernig við eigum að gera þetta. Einkafyrirtækin eru mjög sterk í því að ýta á það að halda þessu.