145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:03]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það þarf miklu faglegri vinnubrögð og aðferðafræði við að forgangsraða í jafn mikilvægum samgönguframkvæmdum og jarðgöngum. Þar eiga samfélagsleg sjónarmið að liggja til grundvallar og ekki á að vera hægt að hvika frá ákveðnu mati á þörf sem er við blasandi. Þetta virðist stundum skorta. Það er kannski þetta sem þarf að ræða betur í þessu samhengi, hvernig menn forgangsraða. Viðmiðin og aðferðirnar við að átta sig á forgangsröðuninni, það er allt saman til. En svo koma aðrir hagsmunir sem virðast vega þyngra þegar á reynir.

Hv. þingmaður er meðflutningsmaður minn að tillögu um að koma Álftafjarðargöngum inn í samgönguáætlun og inn í forgangsröðun. Það er í annað skipti sem sú tillaga er lögð fram hér á þessu þingi. Þessi jarðgöng eiga að leysa af hólmi Súðavíkurhlíðina — sem er með 22 skilgreind snjóflóðagil; í sumum veðrum hafa fallið snjóflóð úr þeim öllum og skólabílar þurfa að aka þessa leið yfir vetrarmánuðina. Göngin eru þess vegna brýnt öryggismál. Það sætir furðu að þau skuli ekki enn vera komin inn í röðina, hvað þá annað. Við erum væntanlega sammála um það, ég og hv. þingmaður.

En spurningin er líka hvort þingmaðurinn tekur undir það með mér að það sé frumskilyrði að ljúka við gerð samgöngukerfisins áður en menn fara að dúlla við einhver gæluverkefni hér og þar um landið. Við verðum að líta þannig á að á Vestfjörðum sé þessari grunnframkvæmd ekki lokið, það sé (Forseti hringir.) ekki búið að klára að koma þar á viðunandi samgöngum. Á meðan þá hljóti það að hafa forgang fram yfir allt annað.