145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:33]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans við andsvari. Ég gleðst yfir því að hann er sammála mér um að við skulum reyna að halda því til haga að Sundabrautin verði inni á núverandi áætlun. Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði í ræðu sinni í morgun að hann væri mér sammála um mikilvægi Sundabrautarinnar og það væri fyllsta ástæða til að þoka því máli áfram.

Varðandi gjaldtöku vil ég segja að eins og hv. þm. Helgi Hjörvar benti á í ræðu sinni áðan eru komnar ýmsar leiðir til að innheimta veggjöld. Mig langar að segja í því sambandi að ég var á ferð um Suður-Rúmeníu í sumar. Við hefðum seint haldið að vegakerfið þar væri betra en á Íslandi en svo er engu að síður. Það er mjög gott vegakerfi í Suður-Rúmeníu. Þar innheimta menn veggjöld með farsímum. Maður sendir bara sms upp í skýið og greiðir þar með sinn toll af því að aka hraðbrautir syðst í Rúmeníu.

Við getum að sjálfsögðu alveg gert hið sama. Það hefur stundum staðið í mönnum hvernig eigi að setja upp innheimtukerfi, aðgang t.d. að ferðamannastöðum, gjaldtöku á ferðamannastöðum o.s.frv. En við eigum ekki að láta það stýra umræðunni eða ákvarðanatöku um hvernig við ætlum að byggja upp innviði í þessu landi. Það er einfalt útfærsluatriði.

Ég er sammála hv. þm. Helga Hjörvar um að höfuðborgarsvæðið hafi orðið eftir í umræðunni um jarðgöng. Það er tækni sem hefur sífellt (Forseti hringir.) tekið framförum. Ég held að við eigum að opna frekar fyrir þá umræðu að Sundabrautin verði sett í stokk undir …