145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við deilum þeirri eftirsóknarverðu tilveru að vera þingmenn Reykjavíkur og hafa áður verið borgarfulltrúar. Mig langar því aðeins að víkja að því þegar farið er yfir það sem helst brennur á kjósendum í Reykjavík og þar eru samgöngumál mjög ofarlega. Þar hefur fólk mestar áhyggjur af því sem stundum er kallað sprungið gatnakerfi, staða almenningssamgangna og svona almennt ástand samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu og kannski ekki síst hérna í Kvosinni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að núverandi samgönguáætlun með þeim breytingartillögum sem þar eru sé að bregðast við þessu með fullnægjandi hætti.

Vegna þess að það hefur verið undirtónninn í því hvernig við, kannski sérstaklega á síðasta kjörtímabili og sem betur fer inn í þetta, höfum viljað ráðstafa fjármagni þá höfum við viljað hafa heimamenn með í ráðum, jafnvel nýta sóknaráætlanir landshlutanna til þess að forgangsraða fé. Þá er það svo að í niðurstöðum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um svæðisskipulag vill þessi mikilvægi og mannmargi landshluti beina sjónum sínum fyrst og fremst að svokallaðri borgarlínu, sem er nýtt léttlesta- eða hraðvagnakerfi, og yrði þá miklu meiri áherslu beint að almenningssamgöngum sem mundi auðvelda þar með þéttingu byggðar um allt höfuðborgarsvæðið sem er þá jafnframt í þágu loftslagsmarkmiða.

Mér virðist eins og menn séu að flytja sig frá því að tala um stórar og þungar stofnbrautir, eins og Sundabraut, yfir í þessar áherslur. Ég velti því upp (Forseti hringir.) hvort hv. þingmaður sé sammála þessari stefnumörkun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.