145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, þ.e. um verðtryggð neytendalán.

Málið var kynnt og reifað í nefndinni. Það er flutt samhliða öðru máli, frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, mál nr. 818.

Bæði þessi frumvörp virðast byggjast á áliti nefndar sem í voru sérfræðingar. Það er margt í því nefndaráliti sem stenst ekki skoðun. Þar er t.d. ekki fjallað um tvö grundvallarhugtök fjármálafræðinnar, þ.e. ávöxtunarkröfu og núvirðingu. Samanburður á greiðsluferlum í áliti þessarar svokölluðu sérfræðinganefndar er algerlega marklaus og er ekki á neinu að byggja þar.

Tilgangur frumvarpsins virðist vera sá að koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti tekið lán að eigin vali og að ganga freklega á samningsrétt neytenda sem lántaka og lánveitenda. Í frumvarpinu er löng og alls óskiljanleg umfjöllun um eitthvað sem hefur verið kallað „Íslandslán“, að því er virðist í háðungar- og lítilsvirðingarskyni. Það eitt og sér á að duga til að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.

Í raun eiga ákvæði um lánstíma ekki erindi í löggjöf um vexti og verðtryggingu. Lánstími er ákvæði sem tekur til samningsfrelsis og er óskylt ákvæðum um vexti sem lúta reiknireglum um margföldun og deilingu.

Það kemur hvergi fram í greinargerð með frumvarpinu ellegar þá í umfjöllun umsagnaraðila til hvers á að takmarka lánstíma lána sem fela í sér að verðbótaþáttur vaxta dreifist á lánstíma lánsins. Hvorki lánveitendur, þ.e. fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir, né fulltrúar þeirra sem eru lántakar, en fyrir þeirra hönd mættu fulltrúar Alþýðusambands Íslands, könnuðust við nokkurt vandamál varðandi lánstíma lána eða lífaldur lántaka. Eina vandamálið sem var til umfjöllunar var veðandlag lána og lífaldur veðandlags. Miklu heldur hefur komið fram að lántakar hafa átt í erfiðleikum með að greiða aukaafborganir af lánum sínum vegna ákvæða í lögum um neytendalán, þ.e. fyrirframgreiðslu af lánunum. Það kom jafnframt fram að flest löng fasteignalán greiddust upp á mun skemmri tíma en lánstími kvæði á um þrátt fyrir vandamál með innágreiðslur. Þar koma t.d. til eigendaskipti.

Þau aldurstengdu ákvæði um lánstíma sem fram koma í frumvarpinu eiga sér engar málefnalegar ástæður og brjóta því í bága við öll sjónarmið um jafnræði þegna, og vandséð hvernig ákvæði frumvarpsins rúmast innan 65. gr. stjórnarskrárinnar. Fáránleiki málsins verður augljósastur í breytingartillögu 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem þeim sem eru eldri en 75 ára verður óheimilt að taka svokallað „verðtryggt neytendalán“. Vert er að benda á að hin aldurstengda reikniregla, sem meiri hluti nefndarinnar leggur til í nefndaráliti og með breytingartillögu, reikniregla sem ég kalla „algorithma“ sem er að eðli „algorithmi“, mun í framtíðinni kallast „Frosti“. Reiknivélin sem verður brúkuð verður kölluð „Íspinni“ þar sem reiknivélin reiknar út lánstíma „Íslandslána“. Ekki var við því að búast að þeir sem um véla hefðu vald á samlagningu og frádrætti fremur en skilning á margföldun og deilingu í nefndaráliti meiri hluta. Mér skilst nú að það hafi ekki verið neinn meiri hluti í þessu máli þannig að það er kannski eitthvað ofsagt, en það er annað mál.

Þá er einnig vert að minna á að lög um vexti og verðtryggingu eiga að fjalla um skilmála um útreikning vaxta og breytileika í lánaskilmálum. Aðrir þættir um lánshæfi, greiðslumat og heimildir til lántöku eiga ekki heima í þessari löggjöf. Þar er gengið langt inn á það eðlilega samningsfrelsi sem á að ríkja í frjálslyndu lýðræðissamfélagi.

Annar minni hluti telur að mál þetta taki ekki á neinum vanda heldur kunni að skapa fjöldann allan af nýjum vandamálum. Það að stytta lánstíma úr 40 árum í 25 ár mun valda um 25–30% hærri greiðslubyrði á svokölluðum „verðtryggðum lánum“.

Með því að frumvarpið leysir engin vandamál en skapar fjölmörg önnur leggur 2. minni hluti til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Því er við að bæta umfram það sem stendur í þessu nefndaráliti að það er fullt af þversögnum í áliti svokallaðrar sérfræðinganefndar sem ég get ekki annað en kallað svokallaða sérfræðinga, því þar kemur fram svo mikið af rugli að það er ekki á neinu að byggja.

Að öðru leyti ætla ég að segja og vísa til umsagna þeirra sem fram komu að það virðist allsendis óljóst hvaða markmiði þetta frumvarp á að ná eða hvaða vandamáli á að taka á.

Ég endurtek: Ég legg til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Annar minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli samanstendur af þeim sem hér stendur, Vilhjálmi Bjarnasyni. Ég hef lokið máli mínu.