145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það að smáum hagsvæðum fylgja hærri vextir vegna þess að þau eru óstöðugri, sérstaklega opnum hagkerfum sem taka við miklum sveiflum og eðli málsins samkvæmt er gjaldmiðillinn hérna lítill. Ég held að það sé margt sem bendir til þess að jafnvel þótt við tækjum upp aðra mynt þá yrði samt áhættuþóknun hér sem fylgdi hagkerfinu vegna smæðar þess og breytileika og hversu útsett við erum fyrir ýmsum sveiflum. Þannig að það er ekki bara við gjaldmiðilinn að sakast heldur það almenna að við erum lítið fábreytt hagkerfi og mjög opið.

Ég vildi aðeins árétta að það er ekki verið að banna eldra fólki að taka lán, undir 50% veðsetningarhlut geta menn tekið lán óháð aldri. Það getur verið að menn hafi lesið skilyrðin rangt, það er nóg að uppfylla eitt skilyrði þannig að ef veðið er undir 50% þá getur þú tekið 40 ára lán, jafngreiðslulán. Sumum þætti það alveg nóg að eyða helmingnum af fasteigninni með þessum hætti. Þetta segi ég bara til þess að leiðrétta misskilning ef hann skyldi hafa verið fyrir hendi hjá þeim sem hlýddu á ræðuna þannig að það er ekki alveg kannski sú forsjárhyggja sem halda mætti í þessu. Ég vildi benda á þetta.

Ég vil líka benda á að það er ekki bara gjaldmiðillinn, það er hagkerfið sjálft og smæð þess. Þangað til við erum búin að stækka það verulega hefur það áhrif á vextina. Jafnvel breska hagkerfið, bandaríska hagkerfið, allt evrusvæðið er að ganga í gegnum sveiflur sem eru stærri en sveiflurnar sem við höfum verið með og þess vegna ættu vextir að vera lægri hér en þar, en þar eru vextir lægri en hér vegna þess að þar er enginn hagvöxtur. Ég held að það gæti verið óheppilegt fyrir okkur að vera með svo lága vexti að þeir væru nánast neikvæðir á sama tíma og við erum í bullandi uppsveiflu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það gæti ekki verið óheppilegt að flytja inn peningastefnu annarra þjóða á versta tíma.